Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mikil hætta í lægðum á gosstöðvunum

Mynd: RÚV / RÚV
Ekki er víst að fólk sem hættir sér í lægðir við gosstöðvarnar komist hreinlega upp úr þeim svo mikil hætta er á gasmengun, segir prófessor í eldfjallafræði. Ætla má að það taka nokkrar vikur þar til hraun fer að flæða út úr Geldingadölum. 

Gæti farið að vella upp úr eftir nokkrar vikur

Hraunkvikan er hægt og hægt að fylla upp í Geldingadali. Verið er að vinna að hraunflæðisútreikningum sem jafnvel verða tilbúnir á morgun. Nú koma þar upp um fimm til tíu rúmmetrar af kviku á sekúndu.  

„Hraunið þarf að vera svona 20 til 25 metra þykkt svo það fari að flæða út um lægstu skörðin í dalnum,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjallafræði við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. 

Og miðað við það sem kemur upp núna, segir Þorvaldur, má ætla það taki vikur en ekki daga að ná þeirri hæð. 

Gasmengun aðaláhyggjuefnið

„Það er kannski fyrst og fremst sem við höfum áhyggjur af er gasið.“

Samkvæmt nýjustu upplýsingum er að hlutfall kolsýrings og brennisteinstvísýrings í kvikunni er frekar lágt, segir Þorvaldur. Það þýði að kvikan er rík af koltvísýringi. 

„Það er dálítið áhyggjuefni því koltvísýringurinn er ennþá þyngri en brennisteinninn og hefur tilhneigingu að liggja í dölum.“

Ef þú beygir þig niður getur liðið yfir þig

Evgenia Ilynskaya eldfjallafræðingur og sérfræðingur í gosmengun segir að engin með öndunarfærasjúkdóma ætti að fara að gosstöðvunum vegna brennisteinstvísýringssmengunar. Um eitt þúsund tonn af honum koma upp á dag. Kolsýringur og koltvísýringur eru miklu lúmskari lofttegundir því ekki finnst lykt af þeim og þær liggja lágt við jörðu: 

„Þá líður bara fólki mjög vel á meðan það stendur og gengur en svo kannski sest það niður eða beygir sig niður til að reima skóinn og þá er það komið með hausinn ofan í gas og það bara líður yfir fólk,“ segir Evgenia.

Ekki garanterað að þú komist upp

Og Þorvaldur er ekkert að skafa utan af því:

„Ég veit að það er spennandi að hraunjaðri og öllu þessu en forðist þið lægðirnar. Gasið getur setið þar niðri og ef þið lendið í því þá er ekkert garanterað að þið komist upp úr því.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þorvaldur Þórðarson.