Langar til að gera Kurdo Kebab að þekktu vörumerki

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Langar til að gera Kurdo Kebab að þekktu vörumerki

22.03.2021 - 07:50

Höfundar

Það er oft mikið að gera á Kurdo Kebab í miðbæ Akureyrar sem er tilkominn vegna Kúrdans, Rahim Rostami. Hann er íranskur Kúrdi og kom til Íslands 2018. „Ég kom hingað sem flóttamaður. Þegar ég kom fyrst þá hafði ég strax í huga einhversskonar rekstur. Ég leitaði að stað fyrir hann en þurfti að bíða eftir að máli mínu lyki hjá Útlendingastofnun.“

Stuttu eftir að Rahim fékk íslenska kennitölu opnaði hann Kurdo Kebab á Akureyri. „Ég kom sérstaklega til Akureyrar. Mér líkar bærinn, hljóðlátur og góður.“ Staðurinn á Akureyri opnaði haustið 2019 en síðan þá hefur hann líka opnað staði á Ísafirði og á Selfossi. „Mig langar að gera Kurdo Kebab að þekktu vörumerki á Íslandi.“ 

Rahim hefur reynt ýmislegt, á ekki mjög langri ævi, og búið víða. Hann var aðeins 17 ára þegar hann fór til Noregs og dvaldi þar í þrjú ár. „Ég skrifaði bók í Noregi um Kúrdistan og eftir það var ég í fangelsi því að Noregur vísaði mér úr landi, þeir samþykktu ekki málið mitt. Ég var fjóra mánuði og tuttugu daga í mjög slæmu fangelsi í Íran.“ Þegar hann losnaði úr fangelsi í Íran hélt hann til Írak. 

„Og í Írak opnaði ég veitingasölu í matarvagni, ekki á veitingastað. Ég á þrjá til fjóra staði í Írak í mismunandi borgum. Svo þegar ég kom til Íslands þá var það fyrsta sem ég hugsaði að opna eitthvað sambærilegt.“ Rahim taldi sér ekki óhætt í Írak, af pólitískum ástæðum, en ætlaði reyndar ekki að flytja til Íslands, heldur Kanada. „Ég er mjög glaður hér. Ég á konu og tvö börn ennþá í Írak. Það er í ferli að þau komi hingað líka.“ 

Heldurðu að þú verðir áfram á Akureyri?

„Mér líkar Akureyri, mjög mikið. En það er líka mjög fínt á Selfossi. Ég var síðasta mánuð á Selfossi að vinna og ég er mjög hrifinn af Selfossi.“