Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraunkvikan sýnir beintengingu niður í möttul

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Hraunið í Geldingadölum kemur svo djúpt úr iðrum jarðar að vísindamaður við Jarðvísindastofnun segir það líkjast háhraðatengingu niður í möttul. Búið er að greina nákvæmlega bergið í gosinu. Það kemur miklu dýpra að en þau hraun sem runnið hafa á Reykjanesskaga síðustu sjö þúsund ár. 

Hraunið sem vellur upp í Geldingadölum er basalt en það er megin einkennistegund íslensku gosbeltanna. En hve langt að neðan kemur þessi hraunkvika?

Á Jarðvísindastofnun eru sýni  úr gosinu unnin og það var í nótt sem í ljós kom hvers konar berg þetta er. Hraunsýnin eru sett í þennan örgreini og í honum er hægt að finna samsetningu hraunsins og greina hvaða frumefni eru í hverjum litlum punkti á skjánum. 

Enikö Bali dósent við Jarðvísindastofnun segir mælingar úr sýnum í samræmi við mælingar jarðeðlisfræðinga en að kvikan sjálf komi líklegra af miklu meira dýpi. 

„Borið saman við það sem áður hefur komið upp á sögulegum tíma á Reykjanesi að þá er þetta mun frumstæðari bráð sem að jú líklegast er að tappast af við meira dýpi heldur en við höfum áður séð,“ segir Sæmundur Ari Halldórsson fræðimaður við Jarðvísindastofnun. 

Þetta basalt heitir ólivín-þóleiít og er af 17 til 20 kílómetra dýpi. Jarðskorpan á Reykjanesskaga er 17 kílómetra þykk. 

Litir í jarðfræðikorti frá Ísor sýna ólík hraun á Reykjanesskaga. Ljósfjólubláu litirnar eru hraun sem runnu í kringum landnám en þessi dekkri; Þráinsskjaldarhraun og Stapafellshraun runnu fyrir meira en sjö þúsund árum. Hraunið í Geldingadölum er líkt þeim mörg þúsund ára gömlu hraunum. Það eru sem sagt alla vega sjö þúsund ár síðan svona hraun rann á Reykjanesskaga.

Þetta þykir jarðeðlisfræðingum merkilegt: 

„Þetta eru mjög spennandi tímar,“ segir Sæmundur Ari, „þarna virðist sem svo að við séum með háhraðatengingu niður í möttul.“

Þetta berg þegar það kemur svona upp er eitthvað hægt að segja sem svo að við séum með greiðari leið niður eða eitthvað slíkt?

„Svo virðist vera. Það má m.a. lesa í gegnum þær gastegundir sem eru að losna. Það er áberandi meira af koltvíoxið t.d. skilst mér en verið hefur og var til að mynda í Holuhrauni. Það er aftur þá til marks um djúpa uppsprettu.“

Sæmundur Ari Halldórsson.
Enikö Bali
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hraunsýni er límd í kubba sem settir eru í örgreini. Úr honum má svo greina efnasamsetningu smæstu einda í efninu.