Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hafa lokið við að merkja gönguleið að eldstöðvunum

Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn
Síðdegis í dag fór tíu manna hópur frá björgunarsveitinni Þorbirni í stikuleiðangur upp á Fagradalsfjall í brjáluðu veðri og nú í kvöld lauk því verkefni. „Nú er hægt að ganga stikaða slóð frá Suðurstrandavegi að gosstöðvunun á mjög þægilegan máta og tekur um eina og hálfa klukkustund fyrir vel búið fólk að ganga þá leið en hún er um 3.5 km eða 7 km fram og til baka,“ segir í Facebook-færslu björgunarsveitarinnar. Rauða línan á kortinu hér að neðan sýnir gönguleiðina.

„Þetta er klárlega stysta og öruggasta leiðin,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við fréttastofu nú í kvöld. Hann segir að nú sé beðið eftir að Vegagerðin opni Suðurstandarveginn í einstefnu, vonandi á morgun. „Þá er næsta skref að skoða frekari bílastæðamöguleika þarna í grendinni og ef það gerist eitthvað í því á næstu dögum verður aðgengið orðið mun betra.“

Varað hefur verið við mikilli gasmengun við gasstöðvarnar á morgun, en þá lægir og við það eykst hætta á að gas safnist í dældum. Davíð vonar að fólk taki mark á viðvörunum. „En við verðum að lyfta grettistaki í því að tryggja að fólk sé betur upplýst um svona hættur og fólk þarf að miðla og deila til kunningja sinna og þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir. Svo er spurning hvað verður gert á  morgun, mér skilst að það verði aukin vakt þarna á svæðinu til þess að tryggja að fólk fari ekki nálægt,“ segir hann.

Frá því að eldgosið hófst um klukkan 21 á föstudagskvöld hefur björgunarsveitin Þorbjörn, ásamt öðrum sveitum af svæðinu, verið að störfum stanslaust, segir í færslu sveitarinnar á Facebook: „Fólk skiptist á að fara að sofa og vaktirnar eru langar. Verkefni okkar í kringum svona eldgos eru aðallega tvíþætt. Í fyrsta lagi nýtum við þekkingu okkar og tækjabúnað til þess að aðstoða vísindamenn frá hinum ýmsu stofnunum við rannsóknir. Þessar rannsóknir hjálpa þessu sama fólki að átta sig betur á því hvað er í gangi og hvar hætturnar leynast. Í öðru lagi erum við að aðstoða Lögregluna á Suðurnesjum við ýmis verkefni. Verkefnin eru t.d. þau að upplýsa fólk við gosstaðinn um gasmegnun, hjálpa til við lokanir á leiðum og svo framvegis.“

Allt í skrúfuna í gærkvöldi

Þá segir að fólk hafi lagt leið sína á gosstöðvunum í þúsunda­tali frá því gosið hófst. „Okk­ur þykir það mjög skilj­an­legt og við vild­um að við gæt­um tekið bet­ur á móti öll­um. Í gær­kvöldi fór svo allt í skrúf­una og fólki gekk illa að kom­ast frá eld­gos­inu sem endaði með fjölda ör­magna fólks sem þurfti á aðstoð okk­ar að halda. Við vildum óska þess að staðan væri betri og viljum koma því á framfæri hér með að við björgunarsveitarfólk erum einfaldlega sjálfboðaliðar sem hlaupa undir bagga með ýmsum aðilum þegar á reynir.“