Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gul viðvörun og ekkert útvistarveður við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Páll Ágúst Þórarinsson veðurfræðingur segir mjög hvasst og úrkomusamt við gosstöðvarnar og farið að kólna að auki. Veður verður áfram slæmt og gefin hefur verið út gul veðurviðvörun fyrir allan morgundaginn.

Hvöss sunnanátt er við gosstöðvarnar sem færir með sér mikla úrkomu og nú er takið að kólna. „Þannig að nú fer þessi rigning sem er í þessari hvössu sunnanátt að breytast í slyddu, sem er nú ekki gott útivistarveður,“ sagði Páll Ágúst í útvarpsfréttum klukkan tvö.

Stormur og byljótt slyddu- eða hríðarél í kortunum á morgun

„Svo skánar það nú ekki þegar fer að líða á morguninn og morgundaginn. Þá erum við að spá suðvestan hvassviðri eða stormi með dimmum og byljóttum slyddu- eða snjóéljum,“ sagði Páll Ágúst. „Þannig að það er heldur ekkert útvistarveður; lélegt skyggni, kalt og blautt.“

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Suðvesturland og Faxaflóa, sem gilda frá sjö í fyrramálið og fram á aðfaranótt þriðjudags. „Þannig að allur morgundagurinn lítur illa út fyrir svona útivist,“ sagði Páll Ágúst að lokum.

Viðvörun Veðurstofunnar fyrir Suðvesturland og Faxaflóa:

Suðvestan hvassviðri eða stormur, 15-23 m/s, hvassast á Reykjanesi síðdegis. Dimm og byljótt slyddu eða snjóél og slæmt skyggni, hviður um 30 m/s. Ekkert útivistarveður.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV