Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fjöldi fólks hætt kominn við gosstöðvarnar í nótt

Landsbjargarfólk að störfum nærri gosstöðvunum í Geldingadölum að kvöld 21. mars 2021. Óttast var um fjölda fólks, sem skilið hafði bíla sína eftir þar sem gosskoðunarfólk lagði farartækjum sínum gjarnan, en hafði ekki skilað sér í bílana þegar dimma tók og veður og skyggni versnuðu til muna. Hátt á annað hundrað björgunarsveitarfólks tók þátt í aðgerðum fram undir morgun 22. mars
 Mynd: Landsbjörg
Um 140 manns frá nær öllum björgunarsveitum á Suðvesturlandi voru að störfum í vonskuveðri við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga og fjöllunum þar í kring í gærkvöld og nótt, ásamt nokkrum lögreglumönnum. Steinar Þórður Kristinsson, aðgerðastjóri Landsbjargar í Grindavík, sagði í fréttum klukkan fimm að tugum hafi verið hjálpað niður úr fjöllunum, verulega þrekuðum og köldum, og sumum þeirra hreinlega bjargað, svo köld og hrakin hafi þau verið þegar björgunarsveitarmenn komu þeim til hjálpar.

Engin alvarleg slys urðu á fólki í nótt en allmörg úr hópi göngufólks voru þó illa þjökuð af ofkælingu. „Það hafa komið upp nokkur alvarleg atvik með ofkælingu,“ sagði Steinar, sem telur einsýnt að það fólk hafi verið hætt komið. 38 manns fóru í gegnum fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn kom á fót í Hópsskóla í Grindavík. Þar var hlúð að fólkinu uns það treysti sér til að halda heim á leið upp á eigin spýtur.

Leitað að fólki út frá bílnúmerum

„Þetta var fólk sem við pikkuðum upp í vegköntum og fjöllunum, við förum með það þarna inn, skráum það og berum saman við ósótta bíla, til að uppfæra bókhaldið,“ sagði Steinar.

Lítið sem ekkert farsímasamband er við gosstöðvarnar og því ógerlegt að ná í fólk eða miða það út frá símum þess. Leit gærkvöldsins og næturinnar stjórnaðist þess vegna af því, hvort hægt var að hafa uppi á eigendum eða umráðamönnum bifreiða sem lagt var á þeim stöðum sem gosferðafólk skildi bíla sína helst eftir á. Þegar þessi frétt er skrifuð, laust fyrir klukkan sjö, voru umráðamenn þriggja bifreiða enn ófundnir.

Fólki „bara mokað upp á tímabili“

Fólkið sem þurfti á hjálp að halda var í ýmsu ásigkomulagi og fannst á ýmsum stöðum. „Þetta hefur verið svolítið mikið hérna vestanundir Fagradalsfjallinu, fólk sem kemur þar niður og er að lenda í villum úti í hrauninu. Við höfum verið að sækja það og koma því niður á veg.“

Þá var líka töluvert um að hjálpa þyrfti fólki sem komst af sjálfsdáðum niður á veg en var afar þrekað. „Fólk var hérna á tímabili í nótt bara farið að setjast í vegkantana hérna í Festarfjallinu, bara alveg uppgefið.“

Steinar segist ekki hafa tölu á öllu því fólki sem björgunarsveitarmenn réttu hjálparhönd við gosstöðvarnar í nótt. „Við misstum bara má segja töluna á því, þessu var bara mokað upp þarna á tímabili. Menn voru með fulla bíla og kölluðu á fleiri bíla og fólki komið í skjól hér í Grindavík.“

Fólk aftur farið að streyma að Fagradalsfjalli þrátt fyrir gasviðvörun Almannavarna og gula veðurviðvörun

Í samtali við Sunnu Valgerðardóttur fréttamann klukkan sex í morgun kom fram, að fólk væri farið að streyma aftur að gosstöðvunum, þrátt fyrir allar viðvaranir björgunarsveitarfólks á vettvangi og gula veðurviðvörun Veðurstofunnar, og jafnvel viðvaranir Almannavarna um mjög hættulega gasmengun megnuðu ekki að stöðva fólk.