Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Farsóttarnefnd fundar - rætt um að hækka viðbúnaðarstig

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Farsóttarnefnd Landspítala fundaði í gærkvöldi vegna stöðunnar sem upp er komin eftir að 21 kórónuveirusmit greindust um helgina og mun funda aftur upp úr hádegi í dag.

Þetta staðfestir Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður Páls Matthíassonar forstjóra Landspítala í samtali við fréttastofu.

Á Landspítala eru nú þrír inniliggjandi með COVID-19, enginn þeirra er á gjörgæslu. 57 eru á COVID- göngudeild, en þar voru 40 á föstudaginn að sögn Önnu Sigrúnar.

Meðal þess sem rætt verður á fundinum er hvort hækka þurfi viðbúnaðarstig spítalans, sem nú starfar á óvissustigi, upp á hættustig. Spítalinn var færður niður á óvissustig 24. nóvember, en í því felst að viðbúnaður er vegna yfirvofandi eða orðins atburðar.