Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin ummerki um dys í Geldingadölum

Laugardagskvöld 20. mars 2021 við eldstöðvarnar í Geldingadölum í Fagradalsfjalli. Margir lögðu leið sína á fjallið til að berja gosið augum. Rúnar Ingi tók þessar myndir.
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Oddgeir Isaksen, fornleifafræðingur hjá Minjastofnun, fór með þyrlu Landhelgisgæslunnar á laugardaginn í Geldingadali til þess að athuga hvort eldgosið í Geldingadölum væri mögulega að granda dys Ísólfs landnámsmanns sem getið er um í Landnámu. Svo reyndist ekki vera, engar mannvistarleifar fundust, en Oddgeir segir atvikið undirstrika mikilvægi fornleifaskráningar og gagnaaðgengis.

Viða að sér gögnum um fornleifar á Reykjanesi vegna jarðhræringa

„Eftir að þessi órói fór af stað á Reykjanesinu höfum við á Minjastofnun verið að viða að okkur gögnum um fornminjar á svæðinu og fara á staði og mæla upp minjar sem hugsanlega gætu lent í hraunstraumi þarna,“ segir Oddgeir.

„Á þessum stað inni í Geldingadölum var ein heimild um dys þar sem að sagt var að landnámsmaðurinn Ísólfur á Ísólfsskála væri heygður. Þetta var reyndar ekkert mjög áreiðanleg heimild en þannig virkar fornleifaskráning að við eltum vísbendingar og reynum að sannreyna hvort það séu minjar þar.“

Engin ummerki þar sem meint dys átti að vera

„Það reyndist ekki vera, sem betur fer, neinar minjar að ég gat séð sem fóru þarna undir. Reyndar þori ég ekki alveg að éta hattinn minn upp á það að eitthvað hafi verið farið þarna undir hraun en það var allavega ekki á þessum stað þar sem hin meinta dys átti að vera.“

Mynd með færslu
 Mynd: . - ..

Undirstrikar mikilvægi fornleifaskráningar

Oddgeir segir atvikið draga fram mikilvægi fornleifaskráninganna og aðgengis að gögnum.

Búið er að skrá talsvert um minjar á svæðunum í kring en aldrei hafa Geldingadalir verið kannaðir fornleifafræðilega. Þarna hafði mesti óróinn verið og því var ekki talið óhætt að kanna svæðið fyrr en gosið var hafið.

Minjastofnun vinnur nú að heildstæðri úttekt á minjum á Reykjanesi. 

„Enda segja jarðfræðingarnir að þetta sé upphaf af óróatímabili á þessu svæði og það sem við þurfum að gera núna er að öðlast betri yfirsýn yfir minjar og hvað sé mögulega í hættu,“ segir Oddgeir. Að ýmsu sé að huga mannvirkjum og minjum og er unnið út frá spálíkönum um mögulega eldvirkni og hraunflæði.

Aðeins hluti skráður

„Minjar eru að eyðast víða af náttúrunnar völdum og það hefur verið skortur á fjármagni í fornleifaskráningu. Það sem við vildum helst er náttúrulega að vera tilbúin þegar aðstæður koma upp eins og núna á Reykjanesi. Því miður er bara búið að skrá hluta af landinu þannig að það er því miður ekki þannig eins og er,“ segir Oddgeir sem vonast til að það standi til bóta í framtíðinni.

Mbl.is greindi fyrst frá.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV