Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Brasilíska afbrigðið líklega komið til landsins

Þórólfur Guðnason
 Mynd: Almannavarnir - Ljósmynd
Brasilíska afbrigði kórónuveirunnar er líklega komið til landsins. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ný bylgja faraldursins gæti verið að hefjast og hugsanlega þarf að grípa til hertra aðgerða með skömmum fyrirvara. 

Þórólfur segir að næstu dagar muni skera úr um hvort herða þurfi sóttvarnaaðgerðir eftir 26 kórónuveirusmit sem greindust síðustu þrjá daga. Fjórða bylgja faraldursins sé hugsanlega að hefjast. 

„Já, það gæti vel farið svo,“ svarar Þórólfur spurður um hvort ný bylgja sé í sjónmáli. „Ég held að næstu 1-2 dagar muni skera úr um það, a.m.k. frá mínu sjónarhorni.“

Meðal annars hafa komið upp smit hjá starfsmanni Laugarnesskóla, nemanda í Norðlingaskóla, hjá starfsmanni á Landspítala og hjá leikmanni karlaliðs Fylkis í fótbolta. Að minnsta kosti 300 þurfa að fara í sóttkví vegna þessara smita. Þá greindust tíu af 19 manna áhöfn flutningaskips sem kom frá Brasilíu til Reyðarfjarðar í fyrradag. Þórólfur segir líklegt að skipverjarnir séu með brasilíska afbrigði veirunnar.

Það yrðu þá fyrstu smitin af þeim veirustofni hér á landi.

„Ég held að við gerum ráð fyrir því þar til annað kemur í ljós. Við munum vafalaust fá niðurstöður um það á morgun.“

Þórólfur undirbýr tillögur að hertum sóttvarnaaðgerðum bæði innanlands og við landamærin. Svo gæti farið að grípa þurfi tiltölulega fljótt til þeirra.  Hann segir vel koma til greina að skylda þá sem koma til landsins til að fara í sóttkví í Farsóttarhúsi.

„Við erum að greina mjög marga í seinni skimun og við þurfum að tryggja að fólk fari eftir öllum leiðbeiningum og sé ekki að smita aðra, því miður höfum við séð smit í slíkum tilfellum.“