Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Allt að þriggja ára bið eftir ADHD-greiningu

22.03.2021 - 14:00
Mynd: Bergljót Baldursdóttir / Bergljót Baldursdóttir
Allt að þriggja ára bið er eftir að komast að hjá ADHD-teymi Landspítalans fyrir fullorðna. Unnur Jakobsdóttir Smári, sálfræðingur og teymisstjóri, segir að það sé allt of langur tími. Biðlistinn hafi verið langur fyrir covid en hafi nú lengst verulega og sjö hundruð manns bíða nú eftir að komast að. Fjögur hundruð tilvísanir berast teyminu að meðaltali á hverju ári.

Fæðast með ADHD

Vitundarvakning hefur orðið á málefnum fullorðins fólks með ADHD, eða athyglisbrest með ofvirkni, hér á landi og í nágrannalöndunum. ADHD er taugaþroskaröskun sem fólk fæðist með og getur verið að glíma við alla ævi. Lengi vel var talið að einungis börn hefðu þessa röskun en nú er meira vitað um hana. Röskunin getur legið í fjölskyldum og eru fjölmörg dæmi um að eftir að börn greinast með hana fari foreldrar að líta í eigin barm, fari í skimun og fá einnig greiningu.  

Sérstakt ADHD-teymi fyrir fullorðna var stofnað á geðsviði Landspítalans árið 2013 og þá hófst skipulögð þjónusta við einstaklinga með ADHD þar. Einnig er hægt að fá greiningu hjá sálfræðingum og geðlæknum á stofum. Í teyminu á Landspítalanum starfa læknar og sálfræðingar. Til að komast að í skimun, greiningu og meðferð hjá þeim þarf tilvísun frá lækni.

Góður árangur af vinnu ADHD-teymis

Fjallað var um árangur lyfjameðferðar fullorðinna í ADHD-teymi Landspítalans á árinum 2015 til 2017 í Læknablaðinu í fyrra og sýndu niðurstöður að árangur var góður. Þeir sem ljúka meðferð í teyminu ná miklum árangri, einkenni minnka og lífsgæði batna. 

Unnur segir að strax árið 2013, þegar teymið var stofnað, hafi verið mikil eftirspurn eftir þjónustunni og hún hafi aukist með árunum. Í fyrra, 2020, hafi borist rúmlega 400 tilvísanir þar sem óskað er eftir greiningu og að meðaltali hafi tilvísanir verið 400 á ári frá stofnun teymisins. 

Sumir hafa beðið í þrjú ár

Langir biðlistar eru eftir þjónustu teymisins. „Það eru í kringum 700 manns á biðlista. Og hvað eru þeir búnir að vera lengi? Þeir eru margir búnir að bíða mjög lengi. Það eru upp undir þrjú ár sem fólk getur þurft  að bíða eftir þessari greiningu. Það er mjög langur tími?  Já mjög langur tími, allt of langur tími.“

Unnur segir að faraldurinn hafi haft áhrif á biðlistana. Hægst hafi á allri starfsemi þegar samkomubann var sett má og miklu minna hafi verið um greiningar. Því hafi biðlistinn lengst á þeim tíma. Nú sé verið að reyna að vinna hann niður.  

Vangreint hjá stúlkum

Unnur segir að ADHD sé taugaþrosakröskun, sem þýðir að fólk fæðist með hana og einkennin komi fram í bernsku. ADHD stendur fyrir athyglisbrest með ofvirkni og hvatvísi en ofvirkni og hvatvísi séu oft meira ríkjandi í bernsku. Úr því dragi hjá fullorðnum og þá sé meira eirðarleysi og óróleiki en beinlínis mikil ofvirkni. Sumir geti litið út fyrir að vera vanvirkir. Þeir eigi í erfiðleikum með að koma sér að verki eða halda athyglinni vakandi. Einnig geti þeir þjáðst af frestunaráráttu.  

Fjölgun fullorðinna með ADHD megi skýra að hluta til með því að þeir sem komnir eru yfir 35 ára hafi ekki verið greindir þegar þeir voru börn því þá hafi ekki verið þekking á ADHD. Einnig hafi ADHD verið töluvert vangreint hjá stúlkum. Þær komi seinna í greiningu en strákarnir því einkennin komi öðru vísi fram hjá þeim en strákunum. Þær fari því undir radarinn í skólakerfinu. 

Ströggla í gegnum skólakerfið

Þeir sem hafa þjáðst af ADHD og ekki fengið greiningu hafa oft sem börn strögglað töluvert í gegnum skólakerfið, segir Unnur. Oft hafa þeir ekki náð að ljúka námi, ekki tekið stúdentspróf eða náð að klára framhaldsnám. Þeir hafa sömuleiðis átt erfitt á vinnumarkaðnum. Stoppa stutt á hverjum vinnustað og ná ekki þeim árangri sem þeir hefðu viljað. Einnig fylgja þessari röskun erfiðleikar í samskiptum, hvatvísi og slæm stjórn á tilfinningum, sem getur haft vond áhrif á fjölskyldulíf. Sjálfsmynd fólks er oft slæm og sjálfstraustið líka. Unnur segir að það geti skipt gríðarlega miklu máli að fá greininguna. „Og margir finna fyrir því að það getur verið sjálfseflandi að fá þessa greiningu og átta sig á að það er þetta sem ég hef verið að ströggla við alltaf.“

Lyfjanotkun hefur margfaldast

ADHD-teymi Landspítalans var stofnað 2013 að frumkvæði velferðarráðuneytisins til að mæta hraðri fjölgun ADHD-geininga á stofu, hækkandi lyfjakostnaði og vísbendingum um vaxandi misnotkunmMetýlfenídats í samfélaginu.   

Bent er á í greininni í Læknablaðinu þar sem sagt er frá rannsókninni á árangri ADHD-teymisins að lyfjanotkun við ADHD hjá fullorðnum á Íslandi hafi margfaldast og sé nú svo komið að kostnaður vegna lyfja við ADHD nemi í heild hærri upphæð en kostnaður vegna notkunar annarra lyfjaflokka hjá Sjúkratryggingum Íslands. Notkun þessara lyfja hér á landi árið 2015 hafi verið tvöfalt meiri en í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Ekki liggi fyrir fyrir miðlægar upplýsingar um tíðni ADHD-greininga á Íslandi. Á tímabili sem rannsóknin tók til, 2015 til 2017, hafi nýútgefin lyfjaskírteini fyrir metýlfenídat fyrir18 ára og eldri verið 3.114 og að 479 lyfjaskírteini hafi verið gefin út hjá ADHD-teyminu.  Því megi draga þá ályktun að mikill meirihluti fullorðinna sem er á lyfjum við ADHD á Íslandi hafi ekki farið í gegnum ADHD-teymi Landspítalans, segir í greininni. 

„Manni finnst þetta svolítið óhugnanleg þróun að þetta sé alltaf að aukast svona mikið. En það má ekki gleyma að þetta eru góð lyf sem hjálpa þeim sem hafa raunverulega ADHD, þá hjálpa þessi lyf gríðarlega mikið. En nei aukningin er mikil og maður hefur alveg áhyggjur af því .