Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

21 COVID-19 smit um helgina

22.03.2021 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ljósmynd
Tuttugu og eitt COVID-19 smit greindist innanlands um helgina. Meðal smitaðra eru tíu skipverjar á flutningaskipi sem liggur við bryggju á Reyðarfirði. Fimm til sex smitaðra voru utan sóttkvíar. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir að of snemmt sé að segja til um hvort fjórða bylgja kórónuveirufaraldursins sé hafin.

„Það er samtals 21 einstaklingur sem greinist um helgina. Þar af eru tíu skipverjar á skipinu. Þá eru eftir ellefu. Ég held að það hafi verið fimm eða sex manns sem voru utan sóttkvíar,“ segir Már. „Það er mikið áhyggjuefni.“

Ekki er vitað hvaða afbrigði kórónuveirunnar greindist. 

„Ég myndi kannski ekki alveg vilja tjá mig á þessu stigi, að vilja kalla það það,“ segir Már þegar hann er spurður að því hvort smitin séu svo mörg að ástæða sé til að líta svo á að fjórða bylgja faraldursins sé hafin hérlendis. „Það ræðst dálítið af framvindu dagsins og morgundagsins. Það fer múgur og margmenni í sóttkví og strok. Það mun skýrast á næsta sólarhring eða tveimur.“

Kennari í Laugarnesskóla er meðal þeirra sem hafa greinst með COVID-19 síðustu daga og eru fjórir starfsmenn skólans og 80 nemendur í fjórum bekkjum í sóttkví. Að sögn Björns Gunnlaugssonar aðstoðarskólastjóra í Laugarnesskóla var kennarinn síðast að störfum á þriðjudaginn. Nemendurnir 80 og starfsmennirnir fjórir verða í sóttkví í dag og fara í skimun á morgun. „Ég vona sannarlega að þau komi öll í skólann á miðvikudaginn,“ segir Björn. 

Leikmenn karlaliða Stjörnunnar og Fylkis í knattspyrnu eru í sóttkví eftir smit sem greindust um helgina.

Almannavarnir boða til upplýsingafundar klukkan 11 í dag. Þar verður gerð grein fyrir stöðu faraldursins. Fundurinn verður í beinni útsendingu á Rás 2, RÚV, RÚV.is og á Facebook-síðum RÚV og Almannavarna. Að auki verða fundinum gerð skil í beinni textalýsingu á RÚV.is