Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þúsundir kvenna mótmæltu í Istanbúl

21.03.2021 - 06:49
epa09086404 Women hold placards and shout slogans during a protest against Turkey's withdraw decision from Istanbul Convention in Istanbul, Turkey, 20 March 2021. Turkish President Recep Tayyip Erdogan pulled Turkey out of the Istanbul Convention which is an international accord designed to protect women. The Istanbul Convention is an international agreement by the Europe Council that started in 2011 for the Prevention of Violence against Women and Domestic Violence and signed by 46 countries to date.  EPA-EFE/ERDEM SAHIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir Tyrkja, að miklum meirihluta konur, mótmæltu í gær forsetatilskipun Receps Tayyips Erdogans um að Tyrkland segi sig frá Istanbúl-sáttmálanum, fyrsta, bindandi alþjóðasáttmálanum sem gerður hefur verið með það að markmiði að draga úr kynbundnu ofbeldi. Tilkynnt var um þessa tilskipun forsetans nánast í skjóli nætur, seint á föstudagskvöld.

Engar skýringar hafa verið gefnar á ákvörðun forsetans en áhrifamenn í Réttlætis- og þróunarflokknum, flokki Erdogans, hafa talað fyrir því að taka þetta skref síðan í fyrra sumar. Segja þeir sáttmálann grafa undan fjölskyldueiningu, hvetja til skilnaðar og færa hinseginsamfélaginu áróðursvopn í hendur.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt tilskipun forsetans og í gær streymdu konur þúsundum saman út á götur Istanbúl og mótmæltu. Tyrkir voru á sínum tíma fyrstir þjóða til að fullgilda sáttmálann, sem lagður var fram í Istanbúl 11. maí 2011. Í honum er meðal annars tekið á nauðgunum og kynferðisofbeldi innan jafnt sem utan hjónabands, kynfæralimlestingu, mansali, ofsóknum gegn hinsegin fólki, heimilisofbeldi og fjölmörgum, kynbundnum ofbeldisverkum öðrum.

Mótmælendur segja að með því að segja Tyrkland frá sáttmálanum séu stjórnvöld í raun að senda ofbeldismönnum skilaboð um að ekki verði tekið harkalega á heimilisofbeldi, nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi og að jafnvel dráp á konum verði látin sitja á hakanum í réttarkerfinu.

Heimilisofbeldi og konumorð eru landlægt og viðvarandi vandamál í Tyrklandi. Um 300 konur voru myrtar í Tyrklandi í fyrra, samkvæmt kvenréttindasamtökunum „Við munum stöðva konumorð."

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV