Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrennt drukknaði af slysförum við Grænlandsstrendur

21.03.2021 - 03:25
Mynd með færslu
 Mynd: politiet.dk
Þrennt drukknaði þegar bátur fórst við strendur Suður-Grænlands á fimmtudag, milli Narsaq og Qaqortoq. Fólkið, kona og tveir karlar, lögðu upp frá Narsaq á fimmtudag. Þegar þau höfðu ekki skilað sér til Qaqortoq á föstudag hófu lögregla og strandgæsla leit, en siglingin þarna á milli tekur sjaldan meira en klukkustund þegar aðstæður eru góðar.

Tvö hinna látnu, karl og kona, fundust síðdegis sama dag, en snjókoma og lélegt skyggni gerðu leitarmönnum erfitt fyrir, samkvæmt frétt grænlenska blaðsins Sermitsiaq. Hinn karlmaðurinn fannst svo á laugardag. Gengið er út frá því að öll þrjú hafi drukknað af slysförum.

Á vef grænlenska ríkisútvarpsins segir að báturinn hafi líka fundist og að sýnilegar skemmdir hafi verið á stefni hans. Haft er eftir lögreglu að þetta bendi til ásiglingar á sker eða ísjaka eða eitthvað álíka. „Okkar kenning er sú, að þau hafi siglt á eitthvað hart, kastast fyrir borð og drukknað, áður en þeim tókst að bjarga sér í land,“ segir Søren Bendtsen, lögregluvarðstjóri. Hin látnu voru öll á fertugsaldri, búsett í Narsaq. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV