Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Oksanen afhjúpar grimmdina sem konum hefur verið sýnd

Mynd: - / Mál og menning

Oksanen afhjúpar grimmdina sem konum hefur verið sýnd

21.03.2021 - 10:00

Höfundar

„Sofi Oksanen er þekkt fyrir sínar stórbrotnu sögur um konur og hún beinir ekki bara kastljósinu að vöruvæðingu kvenlíkamans í þeim, heldur setur hana beinlínis undir stækkunargler,“ segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi í umfjöllun um nýjustu bók finnska rithöfundarins, Hundagerðið.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Á eftir barnsmissi er barnleysi einhver helsti harmur sem lagst getur á okkur Vesturlandabúa. Allhátt hlutfall fólks, sem vill eignast börn, kemst að því að það getur ekki eignast þau án læknisfræðilegrar aðstoðar; stundum er það svo að hjálpa þarf náttúrunni til að pör geti eignast barn, með sæði föður og eggi móður, en einnig hefur tæknin gert kleift að búa til börn með með gjafasæði eða gjafaeggi, stundum er meira að segja gengið svo langt að önnur kona gengur með barnið en hin verðandi móðir. Nú á dögunum birtist einmitt frétt þar sem talað var um að 60 pör á Íslandi biðu eftir gjafasæði eða -eggi, en staðgöngumæðrun mun vera ólögleg hér á landi. En þar sem er neyð, þar er harmur, og það gefur óprúttnum aðilum tækifæri til að hagnast á þeirri staðreynd, að minnsta kosti eins og því er lýst í þessari nýjustu sögu finnsku skáldkonunnar Sofi Oksanen.

Oksanen hefur áður skrifað um ástandið í Austur-Evrópu eftir fall múrsins, hennar frægasta skáldsaga, Hreinsun, fjallar um tvær konur í Eistlandi og leyndarmál þeirra á sama tíma, þótt vissulega sé farið víðar í sögutíma og -sviði þar, eins og þessari nýjustu skáldsögu hennar, Hundagerðinu. Oksanen skrifar af miklum þrótti um hörmulegar aðstæður kvenna og meðferðina á þeim; segja má að hún afhjúpi grimmdina sem konum hefur verið og er sýnd með vægðarlausum hætti. En þær eru samt sem áður ekki alltaf passíf fórnarlömb, síður en svo, og það á sérstaklega við um þessa nýjustu sögu sem snýst einmitt um tvær konur sem áttu sér samband í voninni um að finna sér leið út úr fátækt og vonleysi í Úkraínu á tæplega þrjátíu ára tímabili frá 1992 til 2016. Sögusviðið er Helsinki og ýmsar borgir eða bæir í Úkraínu sem fæst okkar hér kunnum að nefna, ef borgirnar Donetsk og Kænugarður eru undan skildar.

Aljonka, sú sem segir söguna, er stödd í Helsinki árið 2016 í upphafi bókarinnar þar sem hún fylgist með tveggja barna finnskri fjölskyldu sem kemur með hundinn sinn alloft í hundagerði nokkurt þar í borg. Fljótlega hittir hún aðra konu, Daríu, sem henni verður bilt við að hitta, enda eiga þær sér sögur og leyndarmál sem smám saman koma í ljós í nokkuð langri frásögn, dálítið eins og í myndlíkingunni um laukinn þar sem hvert lagið af öðru hýðist af undir penna höfundar. Átakaflötur sögunnar snýst hins vegar um sölu á eggjum ungra kvenna hjá fyrirtæki sem miðlar slíku í Úkraínu og er sögukonan þar í hlutverki geranda, verkefnastjóra sem vinnur við að miðla eggjum „réttra“ kvenna til para sem þrá að eignast börn, gegn viðeigandi gjaldi, vitaskuld.

Þetta er engin ádrepa, ekki beinlínis, þar sem það er sögukonan sjálf sem er að lýsa eigin gerðum og hvötum, en lesendum er látið eftir að fella siðferðisdómana fyrir sig. En þetta er ekki fagur heimur, hér er um vöruvæðingu kvenlíkamans að ræða þar sem konurnar, sem selja eggin sín, þurfa að ganga í gegnum hormónameðferðir og annað ámóta til að unnt sé að hagnýta egg þeirra í þessum tilgangi. Þær eru líka „mjólkaðar“ til hins ýtrasta og getur það haft mjög alvarleg áhrif á heilsu þeirra og líf, eins og vel kemur fram í greinilega þaulrannsakaðri sögunni. Þetta er gróðabrall og eins og því er lýst í henni, þá getur það leitt til mikilla harmleikja, og höfundinum tekst mjög vel að byggja upp dramað í kringum þetta allt saman og viðhalda háu spennustigi í lestrinum.

Höfuðpersónurnar tvær eru mjög vel mótaðar og við finnum til með þeim báðum, þótt þær séu komnar á vondan stað í tilverunni og raunar komnar út í horn í lífinu um leið og þær takast á við móðureðlið, ef svo má segja, því þær eru báðar uppteknar af börnum sem þær hafa getið með eggjum sínum, þótt ekki hafi þær borið þau undir belti. Raunar hefur sögukonan einnig misst barn sem hún gat með venjubundnum hætti með manni sem hún raunar óttast mjög að komi og hefni fyrir glæp sem hún á að hafa framið. Þetta er átakanlegt í alla staði og afar yfirgripsmikil frásögn sem höfundi tekst glæsilega að halda utan um, með frásagnarhætti þar sem hún miðlar upplýsingum til lesenda í smáskömmtum og byggir þannig upp spennu, því þetta er í raun spennusaga, þótt ekki sé neina lögreglu að sjá neins staðar. Spennan byggist upp með þessum takmörkuðu upplýsingum og lesandinn flettir áfram ákafur, þessi að minnsta kosti, til að komast að þeim leyndarmálum sem augljóslega búa að baki og afhjúpast smátt og smátt.

Um leið er þetta panorama af ástandinu í Úkraínu á tíunda áratugnum og raunar fram yfir byltinguna sem kennd var við Maidan-torg, því hrikalega siðferðilega ástandi sem kommúnisminn skildi eftir sig, þar sem flestum, körlum og konum, þykir fjáröflun með glæpsamlegum aðferðum sjálfsögð, enda rifu olígarkarnir allt í sig strax á tíunda áratugnum með misjöfnum meðulum og almenningur bjó við enn verri lífskjör en meira að segja í sovétinu. Ekki er ég neinn sérfræðingur í samtímasögu Úkraínu eða Austur-Evrópu, en mér sýnist að hér hafi verið velt við öllum steinum til að búa til trúverðuga og raunsæja frásögn. Þungi sögunnar sjálfrar er mikill og þótt lítið örli á nokkrum húmor til að létta undir með okkur lesendum eitt augnablik, þá vinnur spennandi og leyndardómsfull framvindan hana áfram og þegar við áttum okkur betur á því hvað hefur gengið á, verður viljinn til að sjá úrlausnina og endinn sterkari.

Sofi Oksanen er þekkt fyrir sínar stórbrotnu sögur um konur og hún beinir ekki bara kastljósinu að vöruvæðingu kvenlíkamans í þeim, heldur setur hana beinlínis undir stækkunargler. Hún hefur gríðarlega næmt auga fyrir smáatriðum, og það eru líka íronísk, kaldhæðin augnablik í náttúrulýsingum þar sem við fáum mynd af veröld sem er falleg, þrátt fyrir allt, en alltaf andspænis þeim hörmungum sem sagan segir frá. Og það eru líka augnablik ástar og manngæsku, því má ekki gleyma, og sagan er í raun skrifuð til fyrrverandi elskhuga sem ávarpaður er í annarri persónu, sögukonan skrifar til hans, og á endanum áttum við okkur lesendur á þessari ást og þeirri blindgötu sem hún lenti í vegna þess samfélags sem hún á rætur sínar að rekja til.

Nú kann ég ekki finnsku, en mér sýnist að þýðing Erlu E. Völudóttur sé vel af hendi leyst og meira að segja skemmtilega djörf í nokkrum nýyrðum eða tökuorðum sem íslenskuð eru, kannski vegna þess að höfundur sletti úkraínsku eða rússnesku í frumtextanum. En það er mikilvægt að fá svona sögur í íslenskri þýðingu, sögur sem eru stórar og taka á miklum tilfinningum og atburðum með einstaklinga í miðju þeirra, einstaklinga sem kannski geta ekki gert neitt annað en það sem þau gera, þrátt fyrir að það sé ekki alltaf rétt. En breysk mennskan skín þó í gegn og gefur kannski örlitla von, þótt segja verði að hún eigi sér meira en erfitt uppdráttar hér. En Hundagerðið er samt vel lesreynslunnar virði, því hún sýnir okkur hvað djúp örvænting getur fengið fólk til að gera.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bitist um bitana með lífið að veði í hundagerðinu

Bókmenntir

Þegar dúfurnar hurfu - Sofi Oksanen

Erlent

Oksanen fær bókmenntaverðlaunin