Mörg hundruð manns við gosstöðvarnar

Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RUV
Mörg hundruð manns eru við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall en þar gýs enn af álíka krafti og í gær. Veðurstofan vekur athygli á því að veður á svæðinu versnar talsvert eftir því sem líður á daginn. Í kvöld og nótt verður þar hvassviðri, slydda eða snjókoma og því lítið vit í að vera á ferðinni nærri jarðeldunum eftir að dimmir.

Gosvirkni er enn mest í megingígnum en það gýs úr nokkrum gígum og hraun smátt og smátt að fylla dalbotninn. Gosið er lítið en hætta á svæðinu getur verið meiri en margan grunan. Þar gætu orðið mjög skyndilegar breytingar, megingígurinn sem er orðinn nokkuð hár gæti hrunið, það gæti komið framhlaup þannig að kvikan fari hratt fram og það gætu myndast nýjar gossprungur á svæðinu. 

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að ein af þeim hættum sem þurfi að taka með í reikninginn við gosstöðvarnar sé að nýjar sprungur geti opnast. Það gerðist til að mynda í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Í gær hrundi hluti stærsta gígsins þar sem kvikuvirknin er mest og nú á þriðja tímanum opnaðist farvegur fyrir kvikuna syðst í gígnum og er hraunrennslið nú töluvert nærri svæði þar sem fólk sem er að fylgjast með hefur haldið sig.