Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Margir við gosstöðvarnar í nótt – sumir hjóluðu

Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV
Fjöldi fólks lagði leið sína á Fagradalsfjall og að gosstöðvunum seint í gær og í nótt til að berja gosið augum. Sjónarspilið var mikið en ekki hættulaust.

Rúnar Ingi Garðarsson og Tryggvi Aðalbjörnsson frá fréttastofu RÚV, fylgdust með gosinu í gærkvöldi og ræddu við ferðalanga. Það voru flestir sem fóru að öllu með gát, voru vel búnir og tryggir. En einhverjir hættu sér of nálægt hraunjaðrinum og voru illa búin til útivistar um nótt.

Liðsmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar lokuðu svæðið næst stóra gígnum af í gærkvöldi vegna hættu á að eldstöðvarnar breyti sér. „Við fengum fyrirmæli um að rýma svæðið og það hefur verið gert,“ sagði Karín Óla Eiríksdóttir í gær.

Ferðalangarnir sem komust alla leið voru ekki sviknir. „Þetta er frábært, þetta er alveg frábært. Það er alveg stórkoslegt að fylgjast með þessu,“ sagði Guðmundur Þór Ingvason. Hann hafði gengið yfir hraunið og á Fagradalsfjall ásamt félaga sínum Arnari Hauki Rúnarssyni frá Bláa lóninu.

Sumir hjóluðu

Aðrir settu ekki fyrir sig að hjóla frá höfuðborgarsvæðinu að gosstöðvunum. Stína Bang var í hópi fimm annarra á fjallahjólum. Þau komu að gosinu á tíunda tímanum í gærkvöldi. „Við ákváðum svona að kolefnisjafna þetta litla eldfjall með því að mæta á umhverfisvænum ferðamáta,“ sagði Stína. Þau voru vel búin ljósum og græjum. „Við erum allavega búin að fjárfesta í mörgum ljósum og erum með þau öll. Þannig að það ætti ekki að stoppa okkur.“

Björgunarsveitir höfðu áhyggjur

Björgunarsveitarmenn voru ekki í rólegir með allan þennan fjölda við gosstöðvarnar. „Við erum hálf stressaðir með þetta. Vegna þess að hér er fólk að fara bara mjög illa búið og aðstæður eru bara mjög erfiðar. Þetta er hraun, mjög erfitt hraun, myrkur og þetta einhverra klukkutíma ferðalag og fólk er ekki að gera sér grein fyrir þessu,“ sagði Steinar Þór Kristinsson, í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurnesjum.