Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loka svæðinu næst gossprungunni

21.03.2021 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Lögreglan á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka litlu svæði næst gossprungunni í Geldingadölum. Sú ákvörðun er byggð á ályktun vísindaráðs þar sem vakin var athygli á því að stóri gígurinn geti brostið og hrauntaumurinn breytt hratt um stefnu. Þá er einnig hætta á að önnur gossprunga opnist í grennd við gíginn, en það gerðist í eldgosinu á Fimmvörðuhálsi 2010.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að ástæðan fyrir lokuninni sé fyrst og fremst sú að fólk hafi sett sig í óþarfa hættu og komið nærri sprungusvæðinu og ekki sé fyrirséð hvað geri gerst þar.

Lögreglan á Suðurnesjum sendi frá sér tilkynningu um lokunina og vekur enn fremur athygli á öðrum hættum sem kunnu að skapast í kringum gosstöðvarnar:

  • Nýjar sprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með engum fyrirvara.
  • Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt að forðast á hlaupum.
  • Gígarnir eru nú orðnir margra metra háir og geta verið óstöðugir, þeir geta brotnað og mikill og skyndilegur hraunstraumur úr þeim tekið nýja stefnu.
  • Sprengingar geta orðið þar sem hraun rennur yfir vatnsmettaðan jarðveg og þeytt hrauni til allra átta.
  • Hraunið rennur í lokaða dæld og geta lífshættulegar gastegundir safnast saman í dældum sem getur verið banvænt. Hættan eykst þegar vindur minnkar.
  • Auk þess spáir Veðurstofan vondu veðri næsta sólarhringinn og ferðafólk þarf að vera mjög vel útbúið ef það ætlar sér að ganga upp að gosstöðvum. Veðrið versnar talsvert í nótt með hvassviðri, slyddu eða snjókomu.

Mörg hundruð manns eru við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall en þar gýs enn af álíka krafti og í gær.

Gosvirkni er enn mest í megingígnum en það gýs úr nokkrum gígum og hraun smátt og smátt að fylla dalbotninn. Gosið er lítið en hætta á svæðinu getur verið meiri en margan grunar. Þar gætu orðið mjög skyndilegar breytingar, megingígurinn sem er orðinn nokkuð hár gæti hrunið, það gæti komið framhlaup þannig að kvikan fari hratt fram og það gætu myndast nýjar gossprungur á svæðinu. 

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir að ein af þeim hættum sem þurfi að taka með í reikninginn við gosstöðvarnar sé að nýjar sprungur geti opnast. Það gerðist til að mynda í gosinu á Fimmvörðuhálsi. Í gær hrundi hluti stærsta gígsins þar sem kvikuvirknin er mest og nú á þriðja tímanum opnaðist farvegur fyrir kvikuna syðst í gígnum og er hraunrennslið nú töluvert nærri svæði þar sem fólk sem er að fylgjast með hefur haldið sig. 

Magnað sjónarspil varð við gíginn um klukkan 20 mínútur yfir tvö, þegar kvikustreymið braut sér nýja leið hægra megin við gíginn frá myndavélinni séð, eða í þá átt sem fólk hefur staðið og virt gosið fyrir sér.

Svo virðist sem enginn sé þar lengur en fólk hefur fært sig í hlíðina fjær gígnum. Hraunið rennur nú í nýjum farvegi niður hlíðina. Meðfylgjandi myndband er klippt út úr vefmyndavélinni og óhætt að segja að það sé mikið sjónarspil.