Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafa starfað saman á fjallstoppi í nær þrjátíu ár

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn
Það er vetrarríki á Gunnólfsvíkurfjalli sem rís meira en 700 metra úr sæ. Á fjallinu er ratsjárstöð og þar sinna tveir menn vinnu sinni.

„Það felst í því að halda þessu gangandi, rafmagn á húsinu, loftræstingunni, húsinu snyrtilegu. Bara almenn viðhaldsvinna sem við sinnum,“ segir Halldór Halldórsson, staðarumsjónarmaður. 
 
Þeir Halldór og Ólafur Björn Sveinsson starfa fyrir Landhelgisgæsluna sem sér um rekstur íslenska loftvarnarkerfisins en það er hluti af samþættu loftvarnarkerfi Atlantshafsbandalagsins, NATO. Ratsjárstöðin hefur verið starfrækt frá 1991 en aðdragandinn var nokkur ár enda þurfti að leggja veg upp á fjallið og reisa húsið. Þá bar Halldór upp stikur til að marka fyrir veginum og svo flutti hann mest af steypunni upp á fjallið til að reisa húsið, sem hann hefur unnið í síðan. 
 
Halldór og Ólafur búa á Þórshöfn og Bakkafirði og á hverjum virkum morgni halda þeir upp hlíðar fjallsins. „Þessi vegur er tíu kílómetra langur og það eru fimmtán beygjur. Og þetta er alveg upp í 719 metra hæð þar sem stöðin er,“ segir Halldór. Þeir aka upp á fjallið með fært er og flytja sig svo yfir á vélsleða þegar nægur snjór er til þess. Þeir miða við að vera ekki á ferðinni þegar meðalvindur nær tuttugu metrum á sekúndu. „Fjallið ræður alltaf,“ segir Ólafur. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður