
Síðasta gostímabil á Reykjanesskaga varði í nær 300 ár
Síðustu goshrinu á Reykjanesskaga lauk um miðja Sturlungaöld, árið 1240. Hafði þá gengið á með gosum í Reykjaneskerfinu frá árinu 1210, með nokkurra ára hléum. Þar á meðal var gos sem hófst 1226, sex árum eftir að Snorri Sturluson kom heim frá Noregi, og var að líkindum stærsta gosið í hrinunni. Í Oddaverjaannál er getið um þetta gos og talað um "sandfallsvetur á Íslandi." Á vefnum eldgos.is segir að gosin í hrinunni frá 1210 - 1240 nefnist einu nafni Reykjaneseldar.
Eldsumbrotahrinan á Reykjanesskaganum var þó enn lengri, því Reykjaneseldarnir voru aðeins síðasta hrinan af mörgum sem saman mynda eitt allsherjar eldsumbrotatímabil sem teygir sig yfir nær 300 ár, eða allt frá árinu 950 til 1240, samkvæmt greininni á eldgos.is.
Eftir það hefur ekki orðið gos á þessum slóðum sem orð er á gerandi fyrr en nú, eða í rúm 780 ár. Sex eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga. Hengilssvæðið, Reykjaneskerfið, Svartsengi, Krýsuvíkurkerfið, Brennisteinsfjöll og Fagradalsfjall, þar sem nú gýs í fyrsta sinn í að minnsta kosti 6.000 ár. Hraunið sem þá rann kallast Beinavörðuhraun.