Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Erlendir miðlar spenntir fyrir gosinu

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Þór Einarsson
Erlendir fjölmiðlar fjalla ítarlega um eldgosið sem hafið er á Reykjanesskaga, margir minnugir áhrifanna sem gosið í Eyjafjallajökli hafði á flugumferð. Áhrifin af gosinu við Fagradalsfjall verða þó að öllum líkindum minni háttar. Fjölmiðlar beggja vegna Atlantshafsins hafa látið gosið sig varða.

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins greinir frá því að gosið í Fagradalsfjalli spúi að öllum líkindum ekki svipuðu magni af ösku út í loftið.

Danska ríkisútvarpið segir flug til og frá landinu liggja niðri vegna gossins. Það varði þó ekki lengi, og er búið að opna fyrir flugumferð.

Sænska ríkissjónvarpið fjallar um hvernig bjarminn af gosinu hefur litað himininn rauðan í nærumhverfinu.

Norska ríkisútvarpið birtir viðtal við Börge Johannes Wigum, norskan jarðfræðing sem býr hér á landi. Hann segir eldgosið hafa komið nokkuð á óvart eftir að jarðskjálftahrinan tók að róast.

Finnar greina einnig frá gosinu á sinni ríkisfréttastöð, YLE.

Franska dagblaðið Le Monde greinir frá eldgosinu á vef sínum og segir frá því líkt og aðrir miðlar að gosið sé í nágrenni við höfuðborgarsvæðið.

Á vef ítalska dagblaðsins Corriere della Sera er farið yfir jarðskjálftahrinuna og birt mynd af bjarmanum.

Deutsche Welle segir í fyrirsögn að flugumferð hafi stöðvast vegna eldgossins, en eins og áður segir er hún aftur komin af stað.

Á CNN er fjallað um gosið og vísað í tilkynningar Veðurstofunnar á Twitter.

Norðar í Norður-Ameríku er einnig fylgst vel með gangi mála. Kanadíska fréttastofan CBC segir gaumgæfilega frá gosinu.

Fréttastofa Reuters segir nokkuð ítarlega frá gosinu.

AP fréttastofan fer yfir sögu svæðisins. Þar segir til að mynda að eldstöðin við Fagradalsfjall hafi legið í dvala í um 6.000 ár og ekki hafi gosið á Reykjanesskaga í yfir 780 ár.

Bresku miðlarnir Sky og Guardian hafa birt myndir af hraunflæðinu við Fagradalsfjall.