Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýja rakningarappið verður kynnt í næstu viku

19.03.2021 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gangi áætlanir eftir verður ný útgáfa af rakningarappi Almannavarna kynnt á fimmtudaginn. Nýja útgáfan byggir á bluetooth-tækni og í dag verða gögn send Persónuvernd sem mun taka afstöðu til þess hvort notkun appsins standist persónuverndarlög. Hægt er að stilla svæðið sem appið nær til, eftir því hver staða faraldursins er hverju sinni.

Appið er á ábyrgð sóttvarnalæknis sem heyrir undir Embætti landlæknis. Ingi Steinar Ingason teymisstjóri hjá Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna hjá Embætti landlæknis hefur umsjón með hönnun appsins. Núverandi rakningarapp byggir á GPS-tækni til að hjálpa fólki, sem greinist með veiruna, við að rifja upp ferðir sínar. Það mun detta út og það nýja koma í staðinn.

Þau, sem eru með appið í símum sínum, þurfa að samþykkja þessa breytingu; það þarf að leyfa símanum að nota þessa tækni sem er í símanum.

Ingi segir að þegar fyrra appið var í þróun hafi staðið til að það myndi byggja á bluetooth. Það hafi ekki verið hægt á þeim tíma þar sem iPhone og Android símar hafi ekki getað rakið sig saman. „Þannig að fólk með iPhone var bara rakið saman við aðra sem voru með iPhone og það sama gilti um Android,“ segir Ingi. „Nú hafa bæði fyrirtækin þróað tæknina þannig að þessir ólíku símar rekjast saman. Við erum búin að fá samþykki frá Google og fyrir Android útgáfunni og þetta er núna í samþykktarferli hjá Apple.“

Ingi segir að þegar séu nokkur lönd farin að nota bluetooth-rakningarapp, meðal þeirra eru Bretland og Þýskaland. Hann segir að það hafi gefið ágæta raun. 

Embætti landlæknis getur stillt appið þannig að það rekur misstórt svæði í mislangan tíma. 

„Það fer eftir því hver staða faraldursins er hverju sinni,“ segir Ingi. „Núna er stillingin til dæmis þannig að ef einhver smitast þá eru þeir, sem voru í tveggja metra fjarlægð eða minna í fimmtán mínútur látnir vita. Ef fjórða bylgjan kæmi upp, þá gætum við látið appið verða næmara; stækka hringinn og stytta tímann. “