Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ný jarðskjálftahrina undan Reykjanestá

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Átta jarðskjálftar yfir þremur að stærð, urðu nú á sjötta tímanum, og raunar varð sá fyrsti laust fyrir klukkan fimm. Enginn þeirra átti þó upptök sín í næsta nágrenni Fagradalsfjalls, heldur urðu þeir allir á Reykjaneshryggnum, vestnorðvestur af Reykjanestá, þar sem jarðskjálftahrina hófst um klukkan hálf fimm í morgun. Þar hafa nú mælst um 100 skjálftar. Þeir stærstu voru 3,7 að stærð.

Annar þeirra varð klukkan 5.27 og hinn rúmum 20 mínútum síðar. Báðir áttu þeir upptök sín nokkra kílómetra vestur af Reykjanestánni og fundust vel í Grindavík og víðar.  

Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ekki hægt að tengja þessa skjálfta við kvikuganginn undir Fagradalsfjalli, í það minnsta ekki með beinum hætti. Þetta sé þó ekki ólíkt því sem gerðist þegar skjálftavirknin var hvað mest á þessum slóðum í fyrra, þegar virknin færðist iðulega á milli svæða. 

Á umbrotasvæðinu við Fagradalsfjall hefur nóttin verið tíðindalítil, líkt og síðustu dagar. Þar hafa mælst um 250 smáskjálftar frá miðnætti. Enginn þeirra nálgaðist þó að vera þrír að stærð og í gær mældist þar aðeins einn skjálfti yfir þremur að stærð. Sá varð klukkan 11.20 í gærmorgun.
 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV