Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lána Kanada og Mexíkó fjórar milljónir bóluefnaskammta

epa09082345 White House Press Secretary Jen Psaki gestures during a news conference in the James Brady Press Briefing Room of the White House in Washington, DC, USA, 18 March 2021.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS / POOL
Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins.  Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Stjórnvöld í Washington hyggjast senda fjórar milljónir skammta af bóluefni AstraZeneca gegn COVID-19 til nágrannaríkjanna Kanada og Mexíkó á næstu dögum. Þetta er hluti af samkomulagi ríkjanna þriggja um samstarf í dreifingu bóluefna þar sem svigrúm gefst. 2,5 milljónir skammta verða sendar til Mexíkós og 1,5 milljónir til Kanada, sagði Jen Psaki, talskona Hvíta hússins, á fréttamannafundi í gærkvöld.

„Þetta er ekki fullfrágengið ennþá, en þetta er markmið okkar," sagði Psaki og útskýrði að það, að hjálpa nágrannaríkjunum að koma böndum á farsóttina væri mikilvægur þáttur í að hemja hana í álfunni allri.

Ekki komið grænt ljós á AstraZeneca í Bandaríkjunum

Mjög hefur verið þrýst á Bandaríkjastjórn að deila með sér af þeirri ofgnótt bóluefna, sem Bandaríkin hafa tryggt sér. Það á ekki síst við um bóluefni AstraZeneca, sem hefur fengið fulla vottun og öll nauðsynleg markaðsleyfi í fjölmörgum ríkjum heims, en ekki í Bandaríkjunum.

Sænsk-breska fyrirtækið hefur hins vegar þegar framleitt milljónir skammta í verksmiðjum sínum vestra og tilkynnt að þar verði um 30 milljónir skammta tilbúnar til afgreiðslu í byrjun apríl. Fullyrt er að lánið á þessum fjórum milljónum skammta til Kanada og Mexíkó hafi engin áhrif á bólusetningaráætlun Biden-stjórnarinnar.

Þá gerir samkomulag ríkjanna þriggja ráð fyrir því, að þau ríki sem fái bóluefni, skili jafn mörgum skömmtum til baka við fyrsta tækifæri.

Psaki greindi jafnframt frá því að Bandaríkin hafi þegar aðgang að sjö milljónum bóluefnaskammta frá AstraZeneca. Fyrirspurnir hefðu borist frá fjölmörgum löndum um allan heim, sagði Psaki, en enn sem komið er væru engin áform uppi um að deila þeim með öðrum en grannríkjunum tveimur.