Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fleiri ferðaþjónustufyrirtæki muni heltast úr lestinni

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Gistinóttum útlendinga á hótelum hér á landi fækkaði um 98% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og fimm þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll miðað við 167 þúsund í sama mánuði í fyrra. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að búast megi við því að fleiri ferðaþjónustufyrirtæki hætti starfsemi á næstunni.

„Í skammtímahagvísum Hagstofu Íslands fyrir ferðaþjónustu kemur fram að velta í gistingu og fólksflutningum hafi verið 58 prósentum minni í fyrra en árið á undan. Þar kemur líka fram að 97 prósentum færri farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að þessar tölur sýni þá gífurlega alvarlegu stöðu sem ferðaþjónustan stendur í. Meðal þess sem fram kemur í tölum Hagstofunnar er að framboð á hótelherbergjum hefur minnkað um 44%.

„Núna stöndum við frammi fyrir þeirri stöðu að ýmis fyrirtæki gætu verið með mjög litlar eða engar tekjur. Jafnvel eitthvað inn í sumarið. Vonandi breytir ákvörðunin um að opna Schengen-landamærin fyrir almennum bólusettum ferðamönnum einhverju um það, en það er allavegana ljóst að þetta er lengri  tími sem fyrirtækin þurfa að þrauka tekjulítil eða tekjulaus en búist var við,“ segir Jóhannes.

Hann segir að verulega sé farið að taka á hjá fjölmörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. „Ég held að það megi búast við því að það muni fyrirtæki, þar á meðal hótel, heltast úr lestinni núna á næstu mánuðum.“