Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölga áfangastöðum og endurráða um 50 flugmenn

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Icelandair hyggst fljúga til 34 áfangastaða í sumar, nýverið var tveimur bætt við í leiðakerfi félagsins og þá mun flug á suma staði hefjast fyrr en til stóð. Þegar hafa 20 flugmenn sem sagt var upp störfum í fyrra verið endurráðnir og 28 til viðbótar koma til starfa í byrjun apríl. Flugfreyjur og -þjónar sem héldu störfum sínum og fóru í hlutastörf í fyrra munu fara í fullt starf frá og með 1. maí.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Ásdísar Ýrar Pétursdóttur upplýsingafultrúa Icelandair við fyrirspurn fréttastofu um fjölda áfangastaða og hugsanlegar endurráðningar flugliða.

Þar segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort einhverjum af þeim flugfreyjum og -þjónum sem sagt var upp í fyrra verði boðin störf sín aftur.

Félagið kynnti sumaráætlun sína fyrir komandi sumar í október og þar kom fram að flogið yrði til 32 áfangastaða; 22 í Evrópu og tíu í Norður-Ameríku. Nú hafa tveir bæst við - það eru Barselóna sem flogið verður til einu sinni í viku og Portland í Oregon-ríki en þangað verður flogið þrisvar í viku.

Icelandair sagði upp rúmlega 2.000 starfsmönnum í lok apríl í fyrra í kjölfar hruns í millilandaflugi vegna kórónuveirufaraldursins. Nokkru áður var 240 sagt upp og 92% starfsmanna fóru þá í skert starfshlutfall. 

Í september var síðan 88 sagt upp, meirihluti þeirra voru flugmenn.