Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Banaslys á Reykjanesbraut rakið til ölvunaraksturs

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum
Ökumaður fólksbíls sem lést eftir að hafa ekið í veg fyrir vörubíl á Reykjanesbraut við Álverið í Straumsvík 12.janúar í fyrra var ofurölvi. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Umtalsvert alkóhól mældist í blóði hans, segir í skýrslunni.

Ökumaðurinn missti stjórn á bíl sínum sem rann yfir á öfugan
vegarhelming og framan á vörubílinn sem var með snjótönn.  Bíllinn hafnaði á tönninni, ökumaður fólksbílsins hlaut alvarlega höfuðáverka og lést af völdum þeirra.  Akstursaðstæður voru einnig erfiðar þegar slysið varð, snjóþekja og mikil hálka var á veginum og ástandi fólksbílsins var ábótavant. 

Áreksturinn var harður og mikil aflögun varð inn í fólksrými fólksbifreiðarinnar. Þegar fólksbifreiðin hafnaði á snjótönninni hefur tönnin sennilega snúist við átakið til vinstri og jafnvel hallast fram. Efri hluti snjótannarinnar gekk inn í fólksrými fólksbifreiðarinnar og  olli mikilli aflögun inn í ökumannsrýminu. Ökumaðurinn var í bílbelti. 

Vörubíllinn var á 50 km/klst hraða rétt fyrir slysið samkvæmt ökurita. Samkvæmt bílstjóranum byrjaði hann að hemla rétt áður en bifreiðarnar lentu saman en fólksbíllinn rann í hliðarskriði framan á snjótönnina.

Mynd með færslu
 Mynd: Rannsóknarnefnd samgönguslysa
Fólksbifreiðin rann í hliðarskriði framan á snjótönnina.
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir