Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tilkynnti andlát Tansaníuforseta vikum eftir hvarf hans

18.03.2021 - 03:58
epa09080735 (FILE) Tanzanian President John Magufuli (C) delivers his speech during the official commissioning ceremony of the Nairobi Southern Bypass road in Nairobi, Kenya, 01 November 2016 (reissued 17 March 2021). Tanzania's Vice president Samia Suluhu Hassan in a TV address announced that Tanzanian President John Magufuli has died on 17 March 2021 at the age of 61.  EPA-EFE/DANIEL IRUNGU
 Mynd: EPA-EFE - EPA
John Magufuli, forseti Tansaníu, er látinn, 61 árs að aldri. Varaforseti landsins, Samia Suluhu Hassan, greindi frá þessu í gær, eftir að hvorki hafði sést til forsetans né heyrst í rúmar tvær vikur. Hassan sagði í sjónvarpsávarpi í gær að Magufuli hefði dáið á sjúkrahúsi í Dar-Es-Salaam. Dánarorsökin hafi verið hjartasjúkdómur, sem forsetinn hefði glímt við síðustu tíu ár. Orðrómur hefur verið uppi um að hann hefði veikst af COVID-19.

Í sjónvarpsávarpinu sagði varaforsetinn að Magufuli hefði verið lagður inn á hjartaklíník 6. mars en útskrifaður skömmu síðar. Hann hefði svo veikst alvarlega og verið fluttur á sjúkrahús með hraði  sunnudaginn 14. mars. 

Forsetinn kom síðast fram opinberlega 27. febrúar og ekki leið á löngu áður en sögusagnir um að hann væri smitaður af COVID-19 komust á kreik, en ráðherrar í ríkisstjórn hans og háttsettir embættismenn þvertóku þó fyrir að nokkuð amaði að forsetanum.

Gerði lítið úr alvarleika COVID-19

John Magufuli var mikill og opinskár efasemdarmaður um heimsfaraldurinn og gerði lengst af lítið úr alvarleika COVID-19. Hann hvatti landsmenn til að leggjast á bæn, anda að sér heitum gufum og nota hefðbundnar lækningaaðferðir forfeðranna gegn sjúkdómnum.

Í apríl í fyrra skipaði hann  heilbrigðisyfirvöldum að hætta að birta tölur um fjölda smita og lýsti því svo yfir í júní að Tansanía væri laus við COVID-19, fyrir guðlega forsjón. Sjálfur notaði hann aldrei grímu og þvertók fyrir að innleiða hvers kyns lokanir og takmarkanir til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Viku áður en Magufuli hvarf viðurkenndi hann þó, að kórónaveiran væri að líkindum enn á sveimi í landinu.

Yfirlýsing varaforsetans um að forsetinn hafi dáið úr hjartasjúkdómi megnaði ekki að þagga niður orðróminn um að COVID-19 hafi verið hin raunverulega dánarorsök.

Kallaður Jarðýtan

Magufuli var fyrst kosinn forseti 2015, og gekk undir gælunafninu Jarðýtan. Í kosningabaráttunni hét hann því að taka á spillingu í landinu og styrkja innviði alla, svo sem samgöngumannvirk, fjarskiptanet, menntun og heilbrigðisþjónustu.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt hann fyrir einræðistilburði, sem birtust meðal annars í aðgerðum til að torvelda starfsemi hvort tveggja stjórnarandstöðuflokka og frjálsra fjölmiðla í landinu. Þá hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína og aðgerðarleysi í öllu sem lýtur að COVID-19. Engu að síður var Magafuli endurkjörinn í fyrra.

Samkvæmt stjórnarskrá Tansaníu á varaforsetinn Hassan nú að taka við forsetaembættinu og gegna því það sem eftir lifir af fimm ára kjörtímabili hins fallna forseta.