Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Telja sig hafa fundið ástæðu blóðtappanna

18.03.2021 - 14:30
Mynd með færslu
Pål Andre Holme yfirlæknir. Mynd: Skjáskot - VGTV
Sérfræðingar við Ríkissjúkrahúsið í Ósló telja sig hafa komist að ástæðu þess að þrír norskir heilbrigðisstarfsmenn undir fimmtugu fengu blóðtappa eftir að þeir voru bólusettir með bóluefni frá AstraZeneca.

Pål Andre Holme, prófessor og yfirlæknir, stjórnandi rannsóknarinnar, greinir frá því í viðtali við Verdens Gang í dag að óvæntri sterkri ónæmissvörun sé um að kenna. Tekist hafi að greina mótefni sem valdi blóðtöppunum. Eftir að hafa borið sig saman við sérfræðinga í ónæmisfræði við háskólasjúkrahúsið í Norður-Noregi komi önnur skýring ekki til greina.

Einn norsku heilbrigðisstarfsmannanna lést á sunnudag af völdum heilablæðingar. Norðmenn hættu tímabundið að nota bóluefnið frá AstraZeneca á föstudaginn var.

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar kváðu í gær upp þann úrskurð að ekki væri ástæða til annars en að nota bóluefni fyrirtækisins, þar sem kostir þess vægju þyngra en ókostirnir. Búist er við niðurstöðu frá Lyfjastofnun Evrópu á hverri stundu.