Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Svipað og að fylgjast með stríðsátökum í heimalandinu

18.03.2021 - 20:00
Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV/Kristinn Þeyr Magnússon
Meira en 90 þúsund greindust með kórónuveiruna í Brasilíu síðastliðinn sólarhring. Heilbrigðiskerfi landsins stendur vart undir álaginu. Forseti landsins ber mikla ábyrgð á stöðunni, segir maður sem fæddur er og uppalinn í Brasilíu.

„Ég var að horfa á viðtal við Sýrlending í gær um hvað það er erfitt að fylgjast með stríðinu héðan og það er mjög svipuð tilfinning. Við sitjum hér í ítrasta öryggi hér en horfum upp á fólkið okkar deyja eins og bara ég veit ekki hvað, í stórum stíl,“ segir Luciano Dutra, þýðandi. 

Luciano er fæddur og uppalinn í Brasilíu og fylgist nú með sífellt versnandi ástandi í landinu vegna kórónuveirufaraldursins héðan frá Íslandi þar sem hann býr. 

Í gær greindust rúmlega 90.300 með veiruna í Brasilíu, fleiri en nokkru sinni fyrr á einum sólarhring. Annað dapurlegt met var sett fyrr í vikunni þar í landi, á þriðjudaginn lést 2.841 Brasilíubúi vegna Covid. 

„Hegðun fólks hefur ekki breyst svo vitað sé, en það er helst að unga fólkið er nú meira að veikjast og sjúkdómurinn sem þetta tilbrigði veldur er miklu verra,“ segir Luciano. 

Útbreiðsla þessa afbrigðis, sem upprunnið er í Brasilíu, hefur sömuleiðis orsakað stóraukið álag á heilbrigðiskerfið. 

„Vísindamenn telja að það þurfi að bólusetja um 80% þjóðarinnar til að það hafi áhrif á útbreiðslu þetta afbrigði veirunnar.“

Forsetinn ber ábyrgð

Mörgum hefur þótt forseti landsins, Jair Bolsonaro, taka á faraldrinum af nokkurri léttúð. Hann hefur til dæmis talað gegn samkomutakmörkunum og sagt að efnahagsleg áhrif slíkra aðgerða gætu orðið mannskæðari en veiran sjálf. 

„Hann ber mesta ábyrgð að mínu mati vegna þess að hann stýrir miðlæga heilbrigðiskerfinu, sem er tiltölulega sterkt í Brasilíu í venjulegu árferði en er undir miklu álagi núna. Ákvarðanir sem hann tók, eða dró lappirnar í að taka, og er ennþá að því, gera það að verkum að heilbrigðiskerfið stendur ekki undir álaginu. Viðræður um samninga á bóluefnum fóru líka seint af stað og þetta allt saman er á hans könnu,“ segir Luciano.