Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sameiginleg nálgun til að ráðast gegn atvinnuleysinu

Mynd: RÚV / RÚV
Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki til að nýta sér ráðningarstyrki til að ráða atvinnulaust fólk í ný störf. Framkvæmdastjóri SA segir að þetta sé sameiginleg nálgun samfélagsins til þess að ráðast á atvinnuleysið. Öll fyrirtæki geti nýtt sér styrkina.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru rétt rúmlega 600 ráðningarstyrkir virkir í þessum mánuði. Þeir hafa verið í boði með ákveðnum skilyrðum í langan tíma. Skilyrðin rýmkast þegar atvinnuleysi fer yfir sex prósent. Þá er miðað við að sá sem er ráðinn þurfi ekki að hafa verið atvinnulaus nema í einn mánuð. Styrkirnir eru veittir til sex mánaða. Þeim hefur fjölgað nokkuð á nýju ári. Í janúar voru veittir tæplega 100 styrkir og um 150 bæði í febrúar og í mars. Þegar ráðningarstyrkur er veittur heldur sá atvinnulausi áfram atvinnuleysisbótum og atvinnurekandinn greiðir það sem upp á vantar til að uppfylla ákvæði kjarasamninga. Jafnframt greiðir Vinnumálastofnun 1,5% eins komma fimm prósenta framlag í lífeyrissjóð þegar atvinnuleysi er yfir sex prósentum.

Hefjum störf

Átakið Hefjum störf var kynnt í síðustu viku. Ríkisstjórnin ætlar að verja allt að fimm milljörðum til að skapa um sjö þúsund störf. Lítil og meðalstór fyrirtæki með allt að 70 starfsmenn geta sótt um styrkina, sveitarfélög og opinberar stofnanir og loks félagasamtök. Stuðningur er talsvert meiri en í hefðbundnum ráðningarstyrk. Miðað er við að sá sem er ráðinn verði að hafa verið atvinnulaus í eitt ár eða meira. Með hverju starfi fylgja um 472 þúsund krónur á mánuði auk framlags í lífeyrissjóð. Heildarupphæðin er um 527 þúsund krónur með hverju  nýju starfi sem ráðið er í. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, lítur á styrkina sem sameiginlegt átak til að ráðast gegn atvinnuleysinu.

„Félagsmálaráðherra kom hingað í Hús atvinnulífsins í gær og fylgdi þessu úr hlaði. Hann tók af öll tvímæli að ríkisstjórnin er að hugsa til þess að öll fyrirtæki landsins nýti sér þetta. Ekki bara þau sem eru illa stödd heldur sé þetta sameiginleg nálgun samfélagsins til þess að ráðast á atvinnuleysið sem stendur núna í miklum hæðum. Við erum með yfir 20 þúsund manns á atvinnubótum og hlutabótum og við getum verið sammála um að það sé óásættanleg niðurstaða. Ég lít á þetta útspil ríkisstjórnarinnar sem stoðsendingu til atvinnulífsins til þess að taka þessu fagnandi og ráða fólk af atvinnuleysisskrá og koma því í virkni á nýjan leik,“ segir Halldór Benjamín.

Átak eða herkvaðning

Halldór hvetur fyrirtæki til að nýta sér þessa leið til að ráða atvinnulaust fólk í ný störf.

„Við getum kallað það átak eða herkvaðningu. Já, ég er sannfærður um að það sé hagur alls samfélagsins að við leitum allra ráða til þess að draga úr atvinnuleysi. Atvinnuleysi er að verða vandamál hér á Íslandi í fyrsta skipti í langa hríð. Einnig sjáum við langtímaatvinnuleysi. Þetta er mjög öflugt vopn í þeirri baráttu. Það síðasta sem við viljum gera er að missa fólk í langtímaatvinnuleysi þannig að þetta verði virknivandamál hjá fólki.“

Bjartsýnn á að úræðið verði vel heppnað

Fyrirtæki geta sótt um ráðningarstyrki og hafa getað það um árabil. Hins vegar verður byrjað að taka við umsóknum vegna átaksins Hefjum störf á mánudaginn eftir helgi. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til ársloka á þessu ári eða átta mánuðir. En er líklegt að fyrirtæki nýti sér þetta?

„Já, ég á von á því að fyrirtæki hringinn í kringum landið séu að skoða þetta um þessar mundir. Við finnum það hér í þjónustu okkar að það er mikið um fyrirspurnir um þetta. Það voru fulltrúar um 200 fyrirtækja sem mættu á fundinn með ráðherra í gær. Þannig að áhuginn til þess að leggja lóð atvinnulífsins á vogarskálarnar til að berjast við atvinnuleysið er sannarlega til staðar. Ég er frekar bjartsýnn á að þetta úrræði verði vel heppnað,“ segir Halldór Benjamín.