Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rúmur sólarhringur frá síðasta skjálfta yfir 3 að stærð

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson
Rúmur sólarhringur er liðinn frá því að síðast mældist skjálfti yfir þremur að stærð á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga. Um 300 jarðskjálftar hafa orðið á skjálftasvæðinu í kringum Fagradalsfjall á Reykjanesskaga frá miðnætti.

Að sögn Elísabetar Pálmadóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, er þar allt með heldur kyrrari kjörum en verið hefur að undanförnu. Enginn skjálfti hefur mælst þrír eða stærri það sem af er þessum degi og einungis tveir voru yfir tveimur að stærð.

Gærdagurinn var líka með rólegra móti, þá mældust alls um 1.400 skjálftar frá miðnætti til miðnættis og aðeins þrír þeirra voru yfir þremur að stærð. Sá síðasti þeirra varð tæplega hálf fjögur næstliðna nótt, og því liðinn rúmur sólarhringur frá síðasta skjálfta yfir þremur.

Minni virkni en samt mikil virkni

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvaársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í gærkvöld að þótt virknin sé minni en undanfarið sé hún engu að síður mjög mikil - á venjulegum degi séu skjálftar á bilinu 60 - 100 á sólarhring. Vísindaráð almannavarna kemur saman í dag og tekur stöðuna og þar munu ýmsir sérfræðingar bera saman bækur sínar um framvindu mála á skjálftasvæðinu.