Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Risastórar kerfisbreytingar“ í þágu barna

18.03.2021 - 17:00
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
„Það er spennandi að sjá hvernig hægt að að efla þjónustu við börn og fækka þannig barnaverndarmálum,“ segir forstjóri Barnaverndarstofu. Henni líst vel á kerfisbreytingar sem nú eru í deiglunni og segir þær risastórar.

Viðamiklar breytingar eru fyrirhugaðar á þjónustu ríkis og sveitarfélaga við börn. Félags- og barnamálaráðherra hefur þegar mælt fyrir nokkrum frumvörpum á Alþingi, sem nú eru fyrir velferðarnefnd þingsins. Markmiðið er að koma börnum ,sem þurfa einhvers konar aðstoð, til hjálpar fyrr en nú er gert. Til þess á að stigskipta þjónustu við fjölskyldur. Allir gætu verið á fyrsta stigi og fengið þá svokallaðan tengilið, til að mynda í heilsugæslu eða í framhaldsskóla sem á að liðsinna fjölskyldunni. Ef barn þarf aukna aðstoð, færist það á stig tvö eða þrjú og þá tekur svokallaður málastjóri við. Þetta fólk á að hjálpa til við að tryggja að aðstoð sé veitt þvert á kerfi. Heiða Björg Pálmadóttir forstjóri Barnaverndarstofu segir að sér lítist prýðilega á fyrirhugaðar breytingar. 

„Þetta eru náttúrlega risastórar kerfisbreytingar, ekki bara í félagsþjónustu heldur allri þjónustu við börn, alveg sama á hvaða sviði það er. Þetta eru í raun og veru breytingar sem við, sem höfum helgað okkur því að reyna að hjálpa börnum, höfum séð ákveðna veggi og hindranir og hvernig væri hægt að starfa öðruvísi og þessi frumvörp sem er búið að leggja fram tala mjög vel saman við það,“ segir Heiða Björg. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Í umsögn sinni með frumvarpinu leggur Barnaverndarstofa áherslu á að það þurfi að gera frekari lagabreytingar í þágu barna. 

„Það er inni í félagsmálaráðuneyti í gangi núna vinna við að breyta barnaverndarlögum, þannig að þessi samþætting eða farsældarfrumvarp fúnkeri líka í barnaverndinni. Í því frumvarpi er líka aðeins verið að breyta strúktúrnum á barnaverndarkerfinu sem er mjög áhugavert og þau frumvörp voru í samráðsgátt núna í febrúar. En svo eru þetta svo stórar kerfisbreytingar að þegar þetta kerfi fer af stað og við förum að vinna með það getur verið að þurfi að fínísera eitthvað. En það er bara eðlilegt og þannig sem heimurinn fúnkerar,“ segir Heiða Björg. „Það þarf bara að fara af stað og sjá hvernig kerfið virkar og svo eru bara einhverjar smá lagfæringar sem þarf kannski að gera, það þarf bara að koma í ljós.“

Barnaverndarstofu, sem Heiða Björg fer fyrir, á að leggja niður og búa til tvær nýjar stofnanir, Barna- og fjölskyldustofu annars vegar og Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hins vegar. Þessu er Barnaverndarstofa fylgjandi. 

„Við sjáum bara lógík í því að skipta ákveðnum verkefnum upp. Barna- og fjölskyldustofu eru falin gríðarlega mörg stór verkefni í að samhæfa og efla þjónustukerfi barna. Þá er kannski ágætt að geta einbeitt sér að því og svo öðrum stjórnsýsluverkefnunum sem áfram verða hjá stofnuninni, það er minnsti parturinn að fara í raun og veru. Svo er áhugavert að sjá í þessari gæða- og eftirlitsstofnun sem er að verða til, þar er verið að efla eftirlitið mjög mikið í velferðarþjónustu við börn meðal annars og það er líka mjög brýnt og mjög gott að gera það.“ 

Stillur úr umfjöllun Kveiks um stöðu kennara á Íslandi.
 Mynd: Kveikur - RÚV

Hlutverk Barna- og fjölskyldustofu verður að veita og styðja við þjónustu í þágu barna, fræða stjórnvöld, gefa út leiðbeiningar, sjá um uppbyggingu stofnana og sérðhæfðra úrræða fyrir börn, standa fyrir rannsóknum og sjá um söfnun og vinnslu upplýsinga svo eitthvað sé nefnt. 

„Barnaverndarstofa hefur haft það hlutverk að samhæfa og efla barnaverndarstarf á Íslandi með sveitarfélögum og öðrum stofnunum,“ segir Heiða. „Það er verið að taka það konsept, því það hefur gengið vel í barnaverndinni, að það sé ein ríkisstofnun sem hefur þetta hlutverk og svo er verið að færa það hlutverk yfir önnur þjónustukerfi þannig að það er ein öflug burðug fagstofnun sem hefur það hlutverk að styðja við og styrkja þá starfsemi sem á sér stað annars staðar, hvort sem það er hjá ríki eða sveitarfélögum, og draga þá að borðinu og reyna að efla og styrkja þjónustu við börn og það er gríðarlega spennandi verkefni að reyna að fylgja því úr hlaði.“ 

Heiða Björg bendir á að markmið þessara umfangsmiklu kerfisbreytinga sé að efla almenna þjónustu við börn, styrkja þau kerfi og fá meiri stuðning til þess að hægt sé að grípa inn í vanda barnanna þegar hann kemur fram. Vandinn birtist oft með einhverjum hætti í vægari þjónustukerfum en í barnaverndarkerfinu.

„Börn eru oft búin að fara í gegn í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu, félagslega kerfinu, fötlunarkerfinu, stundum í fleiri en einu og fleiri en tveimur kerfum. Það er svo spennandi að sjá hvernig við getum eflt hin almennari þjónustukerfi til þess vonandi eftir tíu til tuttugu ár séum við komin með færri barnaverndarmál. Því að það er náttúrulega stóra markmiðið að grípa inn í vanda barna áður en hann verður of stór og alvarlegur,“ segir hún. „Barna- og fjölskyldustofu er ætlað að styðja og styrkja barnaverndarkerfið áfram, algjörlega, en líka félagslega kerfið, fötlunarkerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og svolítið að leiðbeina og fræða í gegnum hvernig stofnanir mega tala saman og um hvað, þannig að barnið sé hjartað og við komum öll saman og sinnum því.“  

Barnaverndarstofa bendir á, í umsögn sinni með frumvarpi um samþættingu þjónustu í þágu barna, líkt og fleiri stofnanir og sveitarfélög, að gert sé ráð fyrir umfangsmikilli söfnun og vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Barna- og fjölskyldustofa á að setja reglur um notkun þessara upplýsinga, hafa umsjón með gagnagrunninum sem á að útbúa og jafnframt bera ábyrgð á allri vinnslu persónuupplýsinga í grunninum. Er ástæða fyrir fólk að hafa áhyggjur af því? 

„Nei, ég myndi ekki segja það. Í svona vinnu þarf hins vegar að huga mjög vel að því hvaða upplýsingum á að deila, verður að deila og hvers vegna. Það er svolítið stórt verkefni sem við þurfum að setjast niður og skilgreina við sköpun Barna- og fjölskyldustofu eða fæðingu hennar, hvernig á að huga að því. Af því að það er þannig að til þess að mismunandi þjónustuaðilar geti talað saman af einhverju viti þurfa þeir að vita hvað hinir eru að gera og af hverju. Annars eru allir í blindni að þreifa sig áfram og það er það sem við viljum breyta. En hins vegar er það ekki þannig að þú þurfir alltaf að fá upplýsingar um allt og það er svolítið það verkefni að skilgreina og skipuleggja að þjónustuaðilarnir fái nauðsynlegar upplýsingar til að geta sinnt starfi sínu og samhæft þjónustuna en ekki umfram það. En ég hef fulla trú á því að það sé hægt að gera það mjög vel og vandlega þannig að ég myndi ekki segja að fólk þyrfti að hafa áhyggjur en svo má ekki gleyma að samþættingin gengur út á að stofnanir vinni saman og deili upplýsingum af því að fólk vill það. Og það er hjartað í þessu líka að samþætting samkvæmt þessu farsældarfrumvarpi fer aldrei fram nema með samþykki þeirra aðila sem í hlut eiga,“ segir Heiða Björg Pálmadóttir forstjóri Barnaverndarstofu. 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV