Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nýr stjórnmálaflokkur stofnaður - Landsflokkurinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhann Sigmarsson kvikmyndagerðarmaður og listamaður hefur stofnað stjórnmálaflokk, Landsflokkinn. Fram kemur í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum nú rétt í þessu að flokkurinn sé nýstofnaður og stefnt sé að framboði á landinu öllu fyrir alþingiskosningarnar í september. Nái flokkurinn manni á þing, verði frumvarp að nýrri stjórnarskrá það fyrsta sem lagt verði fram.

Jóhann komst í fréttirnar í október 2019 fyrir áform sín um að gera höggmyndir af íslenska landsliðinu í knattspyrnu að taka víkingaklappið. Hann hefur einnig gert húsgögn úr gömlum trédrumbum úr Reykjavíkurhöfn. Þá gerði hann kvikmyndirnar Ein stór fjölskylda og Óskabörn þjóðarinnar. Hann kom einnig að gerð myndarinnar Veggfóður.

Í tilkynningu Landsflokksins er óskað eftir fólki til að bjóða sig fram fyrir flokkinn og starfa við hann. Einnig hefur verið birt kosningastefnuskrá í 40 liðum. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV