Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ný rannsókn sýnir að kannabis dregur ekki úr þrautum

Kannabisplöntur í gróðurhúsi í Hollandi.
 Mynd: Mateusz Atroszko - Freeimages
Viðamiklar rannsóknir tuttugu vísindamanna um tveggja hálfs árs skeið leiða í ljós að kannabis sem inniheldur vímuefnið THC hefur engin áhrif við að draga úr sársauka.

Þetta eru einhverjar viðamestu rannsóknir um viðfangsefnið að því er fram kemur í orðum Lars Arendt-Nielsen, prófessors við Álaborgarháskóla í Danmörku. 

Hann hefur sérhæft sig í rannsóknum á líkamsverkjum um árabil og er forseti Alþjóðlegra samtaka um rannsóknir á verkjum (IASP) sem telur sjö þúsund meðlimi í 125 löndum. Frá þessu er greint á vef danska ríkisútvarpsins.

Lars Arendt-Nielsen segir að niðurstöður sýni jafnframt fram á að aukaverkanir geti fylgt notkun kannabisefna, sem innihaldi vímuefnið THC. Vísindamennirnir einbeittu sér að rannsaka kannabis sem verkjalyf en könnuðu ekki áhrif þess á aðra sjúkdóma.

Niðurstöður rannsóknanna er að finna í nokkrum greinum í vísindaritinu Pain

Algengustu aukaverkanirnar eru svimi, þreyta og skortur á athygli. Alvarlegri aukaverkanir geta verið geðrof, sjálfsvígshugsanir, einbeitingarskortur og þunglyndi.

Vísindamennirnir segja ekki nægar sannanir liggja fyrir um verkun og aukaverkun af kannabisvörum sem innihaldi Kannabídól (CBD), sem ekki veldur vímu. Flestar þær vörur sem innihalda CBD koma úr iðnaðarhampi.

Vísindamenn hafa rýnt í niðurstöður margvíslegra vísindalegra rannsókna sem snerta meira en 7.000 manns.

„Klínískar rannsóknir sýna ekki fram á verkjastillandi áhrif kannabis á menn þrátt fyrir að slíkt hafi mátt greina í öðrum tilraunadýrum,֧“ segir Arendt-Nielsen.

Hann telur sennilegt að niðurstöðurnar muni vekja mikla athygli um víða veröld enda sé tilgangur samtakanna sem hann stýrir að upplýsa um áhrif og aukaverkanir lyfja sem notuð eru við langvarandi verkjum.

Arendt-Nielsen segir um 20% Dana þjást af viðvarandi verkjum og viðurkennir að fjöldi sjúklinga telji kannabis lina þrautir sínar. Hann segist ekki vilja hvetja það fólk sem hefur fengið kannabisefnum ávísað frá lækni sínum til að hætta að taka þau.

Hins vegar brýni hann fyrir því fólki að hafa náið samráð við lækninn um bæði áhrif og aukaverkanir efnisins. 

Greinin var uppfærð klukkan 18:47.