Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minni skjálftavirkni gæti verið undanfari eldgoss

Mynd: RUV / RUV
Hugsanlegt er að minni skjálftavirkni nú á Reykjanesskaga sé undanfari eldgoss. Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að áður en Kröflueldar hófust hafi dregið úr skjálftavirkni og aflögun. Vísindaráð kom saman í dag og niðurstaðan var sú að of snemmt væri að segja að jarðhræringum væri lokið þó skjálftum færi fækkandi. „Miðað við stöðuna núna finnst mér líklegast að þessi kröftuga hrina sé búin í bili,“ segir Kristín.

„Við höfum séð að það hefur dregið heilmikið úr skjálftavirkninni þannig að þetta er orðinn lengsti rólegi kaflinn síðan þetta hófst. En ég held að það sé samt fullsnemmt að segja að þessu sé lokið,“ segir Kristín.

En myndir þú segja úr því það hefur dregið þetta mikið úr virkninni að það hafi jafnframt minnkað líkurnar á því að það fari að gjósa þarna á næstu vikum?

„Það þarf ekki endilega að vera. Ef við berum þetta t.d. saman við reynslu úr Kröflueldum þá var það einmitt þetta sem sást þegar fór að líða að gosi, þá dró úr skjálftavirkni og aflögun. Þannig að þetta þarf ekkert endilega að þýða það þó það gæti auðvitað gert það,“ segir Kristín.

Fólk sem býr þarna nálægt, getur það áfram búist við að það komi skjálftar af stærðinni 5 eða jafnvel stærri?

„Ég get auðvitað ekkert útilokað það en fyrst það dregur úr þessum færslum þá er nú líklegast að það sé til marks um minna innflæði og þar með minni spennuuppsöfnun. Það hefur verið heilmikil spennulosun á þessu svæði. Þannig að mér finnst nú líklegra að þetta þýði frekar að það muni draga aðeins úr skjálftavirkni, en svo gæti þetta breyst. En miðað við stöðuna núna finnst mér líklegast að þessi kröftuga hrina sé búin í bili,“ segir Kristín.

Finnst þér líklegt að við séum að fara að sjá einhverja endurtekningu á Kröflueldum?

„Þetta er auðvitað ekki alveg sambærilegt við Kröfluelda. Þar var greinilegt kvikuhólf og endurtekin kvikuhlaup út frá þessu kvikuhólfi. En miðað við það sem er þekkt um Reykjanesskagann er alveg hugsanlegt að það sé að hefjast núna tímabil endurtekinnar virkni þar sem kvika muni fyllast á nýtt og nýtt kerfi á Reykjanesskaganum. Í Kröflueldum er þetta 15 ára tímabil með hléum þar sem er mikil skjálftavirkni, kvikuvirkni og eldgos. Það er alveg hugsanlegt að við séum að ganga inn í slíkt tímabil,“ segir Kristín.

Á morgun er von er á nýrri ratsjármynd sem tekin er úr gervitungli. Ekki er gert ráð fyrir að Vísindaráð almannavarna fundi að nýju fyrr en eftir helgi, svo fremi sem engar breytingar verði á Reykjanesskaganum.

Í tilkynningu sem Almannavarnir sendu nú rétt í þessu segir að næstu daga verði haldið áfram að kortleggja þær sprungur sem myndast hafa á yfirborði á skjálftasvæðinu, ef veður leyfir.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV