Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Mikilla framkvæmda þörf vegna myglu í Grundaskóla

18.03.2021 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Töluverðs viðhalds er þörf á Grundaskóla á Akranesi samkvæmt úttekt Verkís. Fimm sveppategundir sem framleiða hættuleg sveppaeiturefni greindust í sýnum sem send voru til Náttúrfræðistofnunar Íslands. 

Öll starfsemi Grundaskóla var stokkuð upp fyrr í mánuðinum eftir að í ljós komu rakaskemmdir og aðrir ágallar á kennsluhúsnæðinu. Tveir þriðju af húsnæði skólans var lokað og starfseminni dreift á sjö mismunandi staði í bæjarfélaginu.

Í niðurstöðum Verkís segir að rakamælingar þeirra hafi sýnt hækkað gildi í þrettán sýnum af 75 í skólanum. Ekki voru tekin sýni þar sem sjáanlegar rakaskemmdir voru í skólanum því þar segir Verkís að sýnataka þar sé óþörf.

Sýnin voru send til frekari rannsókna hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Í sýnunum fannst óvenjulega fjölbreytt úrval af fruggutegundum, þar af fimm sem framleiða hættuleg sveppaeiturefni.

Mestu framkvæmdirnar vegna glerullaragna

Verst er ástandið í elsta hluta skólans, þar sem kennslurými yngstu nemenda skólans er. Einnig eru tvö rými í kennslurými unglingadeildar lokuð vegna rakaskemmda og viðamiklar viðgerðir þegar hafnar segir á vef Akraneskaupstaðar

Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar, segir niðurstöðurnar þýða að það þurfi að fara í miklar framkvæmdir á skólanum, sem standa líklega fram á næsta ár. Sá hluti sem snýr að myglu og gróum er mjög staðbundinn að sögn Valgarðs og á að vera mjög viðráðanlegur. Mestu framkvæmdirnar eru vegna glerullaragna. Þegar húsnæðið var einangrað hefur frágangur á rakavarnarlagi verið ófullnægjandi, og því verður að ráðast í viðamiklar endurbætur í þeim hluta skólans. 

Engin áhrif á Norðurálsmótið

Grundaskóli hefur jafnan verið notaður til að hýsa keppendur Norðurálsmótsins í fótbolta á sumrin. Þar etja kappi drengir í 7. flokki víðs vegar af landinu. Valgarður sagði rakaskemmdirnar ekki vera í þeirri álmu skólans sem leikmenn hafa gist. Ef ske kynni að ekki verði hægt að gista í skólanum býðst leikmönnum gisting í Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV