Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meira en helmingur Sýrlendinga hefur misst heimili sín

Mynd: EPA / EPA
Meira en helmingur Sýrlendinga, yfir 12 milljónir, hefur misst heimili sín í stríðinu sem nú hefur staðið í áratug. Eftir tíu ár af átökum hafa margir Sýrlendingar litla trú á framtíðinni.

Fyrir tíu árum þegar stríðið hófst bjuggu um 23 milljónir í Sýrlandi. Samkvæmt tölum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa að minnsta kosti 12,3 milljónir hrakist á flótta í átökunum. Af þeim eru 6,7 milljónir á vergangi innan Sýrlands og 5,6 milljónir hafa flúið til annarra ríkja. Langflest þeirra dvelja í nágrannaríkjum. Í Tyrklandi eru skráðar ríflega 3,6 milljónir Sýrlendinga og um millljón í Líbanon, sem er svipaður fjöldi og í allri Evrópu. Líbanon er lítið land, þar búa 6,8 milljónir. Efnahagur landsins er nánast algjörlega í rúst og níu af hverjum tíu Sýrlendingum þar lifa undir fátæktarmörkum.

epa04591125 Syrian refugees in front of their tents at a refugee camp in the Suruc district near Sanliurfa, Turkey, 28 January 2015. According to reports, Kurdish fighters on 26 January claimed to have pushed militants from the group calling themselves
Flóttamannabúðir í Tyrklandi. Mynd: EPA
Tyrkland hýsir um 4 milljónir Sýrlendinga.

„Við höfum verið hér í tíu ár. Þeir sem dóu dóu. Þeim sem batnaði batnaði. Þeir sem lifðu lifðu og nú á fólk börn hér. Við erum týnd. Við erum glötuð,“ segir Mohammed Zakaria, Sýrlendingur í Líbanon. Hala, sem einnig dvelur í Líbanon segir að það gagnist ekki lengur að tala um sársaukann. „Þetta hafði áhrif á heilsu okkar og við veiktumst, þetta komst inn í líkamann. Það lagðist á börnin okkar sem urðu döpur.“

Flutti í yfirgefinn skóla

Fáa ef einhverja óraði fyrir því að átökin stæðu enn, tíu árum síðar. Gríðarlegrar uppbyggingar er þörf, milljónir barna alast upp án menntunar og húsaskjóls og margir Sýrlendingar eiga erfitt með að sjá fyrir sér bjartari framtíð. „Nú er ég flutt í yfirgefinn skóla og þegar loftárásir eru gerðar fer ég með son minn og fel mig á milli trjánna meðan við bíðum eftir að þotan fari. Ég á enga peninga fyrir leigu og get því ekki farið og reynt að búa í öruggu húsi,“ segir Nour Gharib, ekkja sem er á flótta innan Sýrlands.

„Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um fortíðina og það sem ég hef gengið í gegnum. Þetta hefur verið svo erfitt. Ég hugsa líka um framtíðina. Lífið er erfitt núna en hvað bíður? Hvað verður um okkur?" Segir Hiba Mawas sem einnig hefur misst eiginmann sinn og verið á vergangi í Sýrlandi.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV