Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fyrirtaka vegna lífeyrisskuldbindinga yfirlögregluþjóna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mál Óskars Bjartmarz, fyrrverandi formanns félags yfirlögregluþjóna, gegn Ríkislögreglustjóra vegna lífeyrissamkomulags Haraldar Johannessen fyrrverandi ríkislögreglustjóra við hluta yfirlögregluþjóna við embættið, var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Einar Karl Hallvarðsson lögmaður tekur til varna fyrir Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra en Kristján B. Thorlacius lögmaður flytur málið fyrir hönd Óskars Bjartmarz. Málið var þingfest í nóvember.

Aðdragandann má rekja til samnings Haraldar við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hjá embættinu um kjarabætur árið 2019 sem færðu þeim aukin lífeyrisréttindi.

Föst mánaðarleg 50 klukkustunda yfirvinna þeirra færðist inn í föst mánaðarlaun sem jók á lífeyrisréttindi þeirra.

Árni Stefán Árnason, stjórnarmaður í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sagði í samtali við fréttastofu RÚV árið 2019 að oftast væri slíkt mjög eðlilegt, það er að starfsmenn njóti lífeyrisréttinda í samræmi við raunveruleg laun.

Hann sagði forstöðumönnum heimilt að breyta fyrirkomulagi launa en lífeyrissjóðurinn heimilaði ekki breytingar skömmu fyrir töku lífeyris. 

Fyrirtakan í dag er sú fyrsta eftir að greinargerð var skilað í málinu, en ekki liggur fyrir hvenær málið verður flutt. Það fer eftir önnum dómarans.

Sigríður Björk ákvað eftir að hún tók við embætti að raða upp á nýtt í launaflokka. Deilan snýst um það og hvort samkomulag Haraldar frá 2019 haldi, engar forsendur hafi verið til að afturkalla samningana.

Sigríður studdist við lögfræðiálit þar sem Haraldur var sagður hafa skort heimild til að gera samninga af þessu tagi. Málinu var stefnt inn fyrir áramót, nú er verið að leggja inn gögn og síðan fer málið í sinn farveg innan héraðsdóms.

„Oft hafa verið gerðir sambærilegar samningar án ágreinings en ríkislögreglustjóri ávað að hætta að efna samninginn. Ágreiningurinn snýst um hvort henni hafi verið það heimilt.“ segir Kristján B. Thorlacius lögmaður.

„Spurningin er þá hvort samningur Haraldar haldi. Samninga ber að halda, hér var gerður samningur sem á að gilda út ráðningartíma viðkomandi.“ 

Fyrirtaka dómsmáls þýðir að það sé tekið formlega fyrir í dómi og yfirleitt notað um dómþing sem háð eru milli þingfestingar og aðalmeðferðar máls. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV