Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einbreiðum brúm hefur fækkað um 107 á þrjátíu árum

Mynd með færslu
 Mynd: Crux - Wikimedia
Einbreiðar brýr á Hringveginum, þjóðvegi 1 eru nú 33 talsins að meðtalinni bráðabirgðabrú yfir Fellsá sem enn er í notkun. Þeim fækkaði um fjórar á síðasta ári.

Þetta kemur fram á vef FÍB þar sem segir að fyrir rúmum 30 árum, árið 1990, hafi einbreiðar brýr á þjóðvegi eitt verið hátt í 140. Sextán árum síðar voru þessháttar brýr orðnar um 60 talsins og fyrir áratug var fjöldi þeirra kominn niður í 42.

Næstu átta ár á eftir voru aðeins sex brýr breikkaðar eða nýjar byggðar en árið 2019 risu sjö nýjar brýr í stað einbreiðra um land allt. Undir lok þess árs voru fjórar brýr á Hringveginum boðnar út og nú er framkvæmdum við þær lokið eða við það að ljúka.

Ætlunin er að fækka einbreiðum brúm enn frekar á næstu árum og stefnt að því að fjöldi þeirra verði kominn niður í 22 árið 2024. Það kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, í september á liðnu ári.

Þá sagði hann eitt af forgangsmarkmiðum samgönguáætlunar til næstu fimm ára vera fækkun einbreiðra brúa á umferðarmestu vegum landsins.