Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tuttugu ár frá íbúakosningum um Reykjavíkurflugvöll

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Í dag eru tuttugu ár síðan Reykvíkingar greiddu atkvæði um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Naumur meirihluti vildi flugvöllinn burt úr Vatnsmýri. Tuttugu árum og nokkrum starfshópum síðar er flugvöllurinn enn í Vatnsmýri en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki þaðan í áföngum. 

Kjörsókn í íbúakosningunni var aðeins 37,2 prósent, og alls tóku 30.195 borgarbúar þátt í kosningunum, sem snerust um það hvort þeir vildu halda flugvellinum í Vatnsmýri eftir árið 2016 eða að hann yrði færður burt. Atkvæði féllu þannig að 48,1 prósent, eða 14.529 vildu flugvöll áfram í Vatnsmýri en 49,3 prósent, eða 14.913 kusu að Vatnsmýrin yrði nýtt með öðrum hætti. Auð og ógild atkvæði voru 2,3 prósent. 

„Tímamót í sögu borgarinnar“

Á fundi borgarráðs þremur dögum eftir atkvæðagreiðsluna bókuðu borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlistans að atkvæðagreiðslan hefði markað ákveðin tímamót í sögu borgarinnar. „Hún var hvort tveggja í senn, prófsteinn á beint lýðræði í borginni og á þá nýju tækni að greiða atkvæði með rafrænum hætti í almennum kosningum. Bæði hin nýja tækni og hið beina lýðræði stóðst prófið,“ sagði þar.

Umdeilt hvort niðurstöður væru marktækar

Þá kom fram að borgarráð hefði samþykkt að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði bindandi ef 75 prósent atkvæðisbærra íbúa tækju þátt eða að 50 prósent atkvæðisbærra manna greiddu öðrum valkostinum í kosningunni atkvæði sitt. 

„Í niðurstöðunni felst þó mikilvæg leiðsögn til borgarfulltrúa um afstöðu meiri hluta þeirra borgarbúa sem nýttu sér lýðræðislegan rétt sinn. Eðlilegt er að sú afstaða endurspeglist í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem nú er í undirbúningi og endurskoðuðu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar eftir árið 2016,“ sagði í bókuninni. Þá sagði að aldrei hefðu jafn margir borgarbúar látið í ljós vilja sinn á tilteknu borgarmáli með jafn afgerandi hætti. 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins töldu atkvæðagreiðsluna ekki hafa skilað markverðum niðurstöðum. Í bókun bentu þeir á að niðurstaðan væri ekki bindandi þar sem ekki hefðu 75 prósent tekið þátt. „Leikreglum verður ekki breytt eftir á. Það er siðferðilega rangt að vinna þvert gegn því sem leikreglurnar kváðu á um. Viðbrögð borgarstjóra í fjölmiðlum eftir að úrslit lágu fyrir eru til marks um þau miklu vonbrigði sem úrslitin ollu Samfylkingarmönnum innan R-listans og jafnframt tilraun til að fela þann ágreining sem nú er uppi hjá meirihlutanum,“ sagði í bókuninni. 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var borgarstjóri á þessum tíma.

„Ríkið hefur tekið sér dágóðan tíma“

Í tilefni dagsins náði fréttastofa tali af tveimur áhugamönnum um flugvallarmál, á öndverðum meiði.

Gísli Marteinn Baldursson dagskrárgerðarmaður og fyrrum borgarfulltrúi hefur barist fyrir því um árabil að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni og að íbúabyggð verði reist í hans stað. Hann telur ríkið hafa dregið lappirnar í því að finna flugvellinum nýjan stað. 

Heldurðu að flugvöllurinn verði farinn úr Vatnsmýrinni eftir önnur tuttugu ár?

„Ég held það, já, en ég veit það auðvitað ekki frekar en hver annar. En það er á öllu gildandi plani hjá ríki og borg að reyna að finna annan stað fyrir innanlandsflugið. Hvort sem það fer til millilandaflugsins í Keflavík eða annað. Það er verkefni ríkisins að finna annan stað og þau hafa tekið sér dágóðan tíma í það,“ segir Gísli Matreinn.

Hvað þarf að gerast, í grófum dráttum, til að svo verði?

„Í grófum dráttum á að duga að sveitarfélag breyti bara deiliskipulagi og rektraraðili flugvallarins þarf einfaldlega að finna annan stað. Þannig að ríkið þarf bara að finna annan stað fyrir flugvöllinn og það er það sem er gert ef deiliskipulagi er breytt, til dæmis ef þú mátt allt í einu ekki lengur vera með bílaverkstæði á ákveðnu svæði, þá þarftu að færa það. En ríkið hefur dregið fæturna hvað þetta varðar og ekki leitað nógu aktívt að nýjum stað,“ svarar hann. 

„Ríki og borg hafa undirritað aðalskipulag Reykjvíkur þar sem flugvöllurinn er ekki við lok aðalskipulagsins. Þannig að þetta er alveg staðfest af öllum og þetta liggur fyrir. En auðvitað eru allir sammála um að það þarf að finna annan stað fyrir innanlandsflugið og mörgum finnst meira að segja að það eigi að vera í Keflavík þar sem millilanda- og innanlandsflugð er sameinað. Nú er Icelandair búið að sameina millilanda- og innanlandsflug undir sama hatti og það er furðulegt að fólk þurfi að keyra í klukkutíma milli flugvalla til að komast til Akureyrar ef það flýgur til Íslands. Þannig að mér finnst vaxandi stuðningur við að þetta sé bara á sama stað. En í rauninni er ekkert eftir formlega í því að samþykkja að flugvellinum í Vatnsmýri verði lokað. En ríkið verður að finna góðan stað,“ segir Gísli Marteinn.

Hvers vegna skiptir máli að þínu mati að flugvöllurinn víki?

„Það er stærsta umhverfismál Íslands að það sé byggt í Vatnsmýrinni frekar en að hafa þar flugvöll. Við myndum stytta aksturs- og ferðatíma mjög mikið hér á höfuðborgarsvæðinu og þar með gera borgina umhverfisvænni svo um munar. Þetta eru kannski tuttugu þúsund manns sem þar geta búið. Og það munar um minna, fólkið sem verður þar hefur öðruvísi ferðavenjur en ef það býr yst á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það er gríðarlega stórt umhverfismál. Þar fyrir utan styrkir það líka miðborgina og dregur til sín líf þar og stækkar hana, eins og fólk hefur ætlað sér að gera í Reykjavík áratugum saman. Steingrímur Hermannsson lagði til að Alþingi yrði flutt í Vatnsmýrina í staðinn fyrir flugvöllinn fyrir áratugum, og fleiri og fleiri. Það hefur alltaf verið til staðar hópur skynsams fólks sem sér að þetta svæði nýtist betur undir byggð heldur en undir flugvöll,“ segir hann að lokum. 

„Það verða að vera tveir flugvellir á suðvesturhorninu“

Njátt Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er annar tveggja formanna samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni.

Samtökin telja Vatnsmýri raunhæfasta og öruggasta kosturinn í fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu. „Þangað koma og fara slasaðir á bráðamóttöku, sjúkir á sjúkrahús, starfsmenn á fundi, vörur til fyrirtækja, embættismenn í stjórnsýslu, ferðamenn í ferðaþjónustu, nemendur til náms, auk þess sem völlurinn er hjartað í flugsögu Íslendinga aftur til ársins 1919,“ segir á vefsíðu samtakanna.

Heldurðu að flugvöllurinn verði farinn úr Vatnsmýrinni eftir önnur 20 ár?

„Ég stórefast um það. Það tekur mjög langan tíma að færa flugvöll. Og hann verður aldrei færður, það verður að byggja nýjan, svo ég stórefast um það,“ segir Njáll Trausti.

„Það eru mörg skref eftir. Það þarf að vera alvöru sátt um að það sé byggður nýr og finna stað sem er jafngóður eða betri en Vatnsnmýrin. Og að hann geti þjónustað innanlandsflug jafnvel eða betur, með góðu aðgengi að spítalanum og sinni þessu öryggishlutverki. Ef það er hægt að finna jafngóðan eða betri stað þá er það bara þannig. En ég held að það sé erfitt að finna betri kost og hann skiptir miklu máli fyrir aðgengi,“ segir hann og rifjar um  að samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni hafi komið með orðalagið: „Þangað til jafngóður eða betri kostur finnst.“

En þið hafið litla trú á að það sé til betri staður en Vatnsmýrin?

„Já, miðað við hvernig hlutir hafa þróast og ég held að það sé enginn að hugsa af alvöru núna um Hvassahraun síðustu vikur. Mögulega fer að stað jarðskjálftahrina sem gæti endað í eldgosum. Ég held að það sé ekki vitrænt að vinna með þá sviðsmynd. En það verða að vera tveir flugvellir á suðvesturhorninu til að halda alþjóðaflugi gangandi. Það er stórt atriði að hafa tvo flugvelli til öryggis, ef annar skyldi klikka,“ segir Njáll.

Af hverju finnst þér Vatnsmýrin góður staður fyrir flugvöll?

„Það er auðvitað þannig að meirihlutinni í borgarstjórn vill ekki hafa völlinn í vatnsmýri. En það er ekki meiri hluti Reykvíkinga, þeirra vilji er afgerandi. Ég held að almennt þá skilji fólk mikilvægi vallarins vegna samgöngukerfisins en ekki síst út frá sjúkrafluginu og nálægðinni við Landspítalann. Það verður að vera hægt að fljúga með sjúkraflugi og komast hratt á spítalann,“ segir hann.