Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tugþúsundir enn týndar í Sýrlandi

17.03.2021 - 20:27
Mynd: CHHCR / CHHCR
Ekki er vitað um örlög tugþúsunda Sýrlendinga sem stríðandi fylkingar hafa handtekið án dóms og laga. Ástvinir þeirra vita ekki hvort þau eru lífs eða liðin.

Þetta kemur fram í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna um Sýrland. Hún byggir á yfir 2.500 viðtölum við vitni og aðra heimildarmenn. Viðtölin voru tekin allt frá í mars 2011 - þegar stríðið hófst. „Í tvö ár, tvo mánuði og þrjár vikur sá ég ekki sólarljós. Mér leið eins og ég væri grafinn lifandi,“ sagði einn fyrrum fangi samtakanna Hayat Tahrir al Sham sem nú stjórna hluta landsvæðis í norðurhluta Sýrlands. „Þegar ég rankaði við mér var ég í fangaklefa, hafði ekki stjórn á þvaglátum og það blæddi mikið úr kynfærunum. Mesti sársaukinn var samt sá tilfinningalegi,“ sagði kona sem var fangi öryggissveita Sýrlandsstjórnar. 

Útbreidd og síendurtekin mannréttindabrot

Á kortinu hér að neðan sést hve útbreidd þessi grimmilegu brot eru. Rauðu punktarnir tákna fangelsi á vegum sýrlenskra stjórnvalda og bandamanna þeirra þar sem brot hafa verið framin, fjólubláu punktarnir tákna fangelsi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki og loks eru fangelsi á vegum annarra vopnaðra fylkinga sem berjast á móti Sýrlandsstjórn. Sumar þeirra hafa notið stuðnings Vesturlanda. 

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - UN Commission of Inquiry on the
Þessi mynd er úr skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

Hanny Megally, einn þriggja skýrsluhöfunda, segir í viðtali við fréttastofu að eitt af því sem komið hafi í ljós sé að stjórnvöld í Damaskus viti af sínum brotum og hvar fólki er haldið. „Það er afar mikilvægt af tvennum sökum. Annars vegar vegna ábyrgðar og réttlætis síðar meir. Nú getur ríkið ekki lengur sagt að það hafi ekki vitað af þessu, að þarna hafi stjórnlausir aðilar verið að verki. Hins vegar vita fjölskyldurnar ekki hvar ættingjar þeirra eru í haldi. Ríkið lætur fjölskyldu og ástvini vísvitandi ekki vita,“ segir Megally. 

Þau skipta tugum þúsunda sem enn eru týnd. Ástvinir þeirra vita ekki hvort þau eru lífs eða liðin. Þau yngstu sem hafa verið handtekin og færð í alræmd fangelsi án dóms og laga eru ellefu ára gömul. Megally segir pyntingum og ofbeldi beitt skipulega af stríðandi fylkingum til að hræða borgara til hlýðni. „Fólk er tekið og því refsað fyrir að tjá sig, vera í andstöðu, fyrir að hafa ólík sjónarmið og svo framvegis. Það er alveg ljóst. En fólk er líka tekið sem gíslar af geðþótta, sem samningstæki til að reyna að fá aðra til að gefa sig fram eða til að komast yfir peninga,“ segir Megally.