Þetta kemur fram í skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna um Sýrland. Hún byggir á yfir 2.500 viðtölum við vitni og aðra heimildarmenn. Viðtölin voru tekin allt frá í mars 2011 - þegar stríðið hófst. „Í tvö ár, tvo mánuði og þrjár vikur sá ég ekki sólarljós. Mér leið eins og ég væri grafinn lifandi,“ sagði einn fyrrum fangi samtakanna Hayat Tahrir al Sham sem nú stjórna hluta landsvæðis í norðurhluta Sýrlands. „Þegar ég rankaði við mér var ég í fangaklefa, hafði ekki stjórn á þvaglátum og það blæddi mikið úr kynfærunum. Mesti sársaukinn var samt sá tilfinningalegi,“ sagði kona sem var fangi öryggissveita Sýrlandsstjórnar.
Útbreidd og síendurtekin mannréttindabrot
Á kortinu hér að neðan sést hve útbreidd þessi grimmilegu brot eru. Rauðu punktarnir tákna fangelsi á vegum sýrlenskra stjórnvalda og bandamanna þeirra þar sem brot hafa verið framin, fjólubláu punktarnir tákna fangelsi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki og loks eru fangelsi á vegum annarra vopnaðra fylkinga sem berjast á móti Sýrlandsstjórn. Sumar þeirra hafa notið stuðnings Vesturlanda.