Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þriðji og síðasti dagur þingkosninga í Hollandi

17.03.2021 - 19:33
Mynd: EPA-EFE / ANP
Þriðji og síðasti dagur þingkosninga í Hollandi rann upp í dag. Flest bendir til að flokkur forsætisráðherra landsins fái mest fylgi.

Kosningunum er dreift yfir lengri tíma í faraldrinum. Í gær og fyrradag voru eldri borgarar, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og fleiri beðnir að koma og kjósa. Í dag, allir hinir. Og kjörstaðir voru víða opnaðir á miðnætti til að dreifa mannfjöldanum. 

Það gekk vel hjá flestum að kjósa, nema kannski heilbrigðisráðherranum De Jonge, hann þurfti að mæta tvisvar á kjörstað. 

„Ég reyndist vera með gamla vegabréfið mitt með mér. Það var búið að gata það. Ég tók það til í gær en athugaði það ekki nógu vel,“ sagði heilbrigðisráðherrann De Jonge þegar hann kom á kjörstað í annað sinn. 

Enda hefur hann haft um margt annað að hugsa undanfarið. Um 1,2 ein komma tvær milljónir af þeim 17 sem í landinu búa hafa greinst með veiruna. 
Kosningarnar snúast öðrum þræði um dóm kjósenda yfir aðgerðum eða aðgerðaleysi stjórnvalda í faraldrinum. 

Gæti orðið erfitt að mynda stjórn

Því Mark Rutte, forsætisráðherra landsins til tíu ára, vill gjarnan fá að gegna því starfi áfram. Hann kom hjólandi á kjörstað í dag. 

Þrjátíu og sex aðrir flokkar eru á kjörseðlinum, og formenn flokkanna kusu flestir í dag. Fái forsætisráðherrann Rutte umboð kjósenda til að mynda aftur ríkisstjórn, líkt og flestar skoðanakannanir gefa til kynna, gæti það þó tekið tíma. 

Síðast var kosið árið 2017 og þá tók sjö mánuði að mynda ríkisstjórn. 
Kjörstöðum verður lokað klukkan 8 og í kjölfarið má búast við útgönguspám.