Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Styttri ferðatími og minni mengun eru lífsgæði“

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra segir Sundabraut með brú stytta heildarferðatíma á öllu höfuðborgarsvæðinu. Honum hugnast betur að leggja brú yfir sundin en að grafa göng, það væri sömuleiðis tíu milljörðum ódýrara.

Verkefnið er risastórt að sögn Sigurðar en búist er við að það kosti um 70 milljarða króna. Þetta kom fram í samtali Árna Helgasonar og Grétars Theódórssonar við Sigurð Inga í hlaðvarpinu Hisminu.

Sigurður ítrekaði þá skoðun sína að brúin gæti orðið kennileiti borgarinnar, einhvers konar Golden Gate Reykjavíkur. Allt að fjögurra ára aðlögun gæti verið framundan við verkið, umhverfismat, breytingar á skipulagi og undirbúningur hönnunar og framkvæmdir gætu tekið önnur fjögur til fimm ár.

„Komist verkefnið á beinu brautina, þá verð ég sáttur,“ sagði Sigurður Ingi sem telur að brú yfir sundin geti orðið tilbúin 2029 til 2030. Sigurður kvaðst í sumum tilfellum álíta að búið hefði verið til of flókið regluverk.

Alltof mikil orka fer í að rífast um hlutina

Nauðsynlegt væri að tryggja aðkomu almennings á öllum stigum, sérstaklega í upphafi. Einnig þurfi að temja sér að undirbúa framkvæmdir betur svo upphaflegar athugasemdir nýtist.

Þegar ákvörðun er tekin verði svo hægt að drífa framkvæmdir af. „Við erum svolítið að rífast allan tímann, jafnvel langt inn í framkvæmdina, jafnvel um sömu hluti sem hefði átt að leysa í undirbúningsferlinu.“

Sundabrú og -braut dregur mjög úr álagi á Gullinbrú og Ártúnsbrekku að sögn Sigurðar og léttir á vaxandi umferð gegnum Mosfellsbæ um Vesturlandsveg enda sé margt þess sem í borginni er í dag að flytjast upp á Kjalarnes, á Esjumela.

„Eg hef heyrt að Sorpa muni spara allt að 100 milljónir á ári við Sundabraut,“ sagði Sigurður og bætti við að styttri ferðatími og skilvirkari umferð, umferðaröryggi og minni mengun væru lífsgæði.

Fleiri farþegar með almenningssamgöngum

„Umferð um Sæbraut mun aukast mjög mikið en það verða ekki umferðarhnútar. Tengingin við Sæbrautina verður í gegnum stokka sem eru hluti samgöngusáttmálans. Þannig tengist Sundabrautin og samgöngusáttmálinn saman.“

Með því skapist mótvægisaðgerðir fyrir íbúa sagði Sigurður og að Vegagerðin sé í samstarfi við sveitarfélög um nýtt umferðarspálíkan.

„Við erum að fá betri tölur á næstu vikum. Það sem við höfum séð leiðir í ljós að heildarferðatími styttist og að brúin eykur líka möguleika fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur.“

Sigurður álítur að farþegum muni fjölga í almenningssamgöngum og að brúin skapi nýja útfærslu þar. „Sundabraut er líka hluti af norður- suðurás í gegnum borgina. Tengingin fyrir fólk af vestur- og norðurlandi verður betri.“

Það eigi til að mynda fyrir vegfarendur þaðan hyggjast halda út á Reykjanes. Ekki var gert ráð fyrir Borgarlínu í Sundabraut en nýir möguleikar fyrir hana opnast með því að gera brú.

Samvinnuverkefni fjármagnað með veggjöldum

Sigurður segir að hugmyndin sé að vegfarendur um Sundabraut greiði veggjöld en verkefnið er svokölluð PPP-framkvæmd eða samvinnuverkefni opinberra og einkaaðila.

„Þar til viðbótar þarf að hafa í huga að á árunum 2029 til 2030 verður löngu búið að taka upp annað skattafyrirkomulag. Nú erum við með bensín- og dísilgjald sem renna til vegagerðar en það verður búið að skipta því út eftir tvö til þrjú ár.“

Sigurður segir að þá verði komin á einhvers konar notendagjöld, sem metin væru með kubbi í hverjum bílum og greidd mismunandi fjárhæð fyrir að aka mismunandi vegi. 

Önnur leið væru notendagjöld þar sem borgað verði meðalverð fyrir hvern ekinn kílómetra, eftir álestur einu sinni á ári.

Starfshópur er að störfum í fjármálaráðuneytinu í samstarfi við önnur ráðuneyti og Sigurður kveðst búast megi við niðurstöðum frá honum 2022 eða 2023. Aðspurður sagði Sigurður Ingi að bensínlítrinn gæti orðið ódýrari en að gjaldtakan færist einfaldlega til.

Sigurður hafði á orði að hreinorkubílum væri nú að fjölga, en eigendur þeirra greiddu hvorki bensín- né dísilgjald.

„Þeir borga ekkert fyrir afnotin af vegakerfinu, og þegar þeir verða orðnir helmingurinn af bílunum höfum við einfaldlega ekki nægar tekjur til að standa undir vegaframkvæmdum, það er líka ósanngjarnt.“