Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir að hægt gangi að ljúka verkefni um heimaslátrun

Mynd með færslu
 Mynd:
Bóndinn í Birkihlíð í Skagafirði og einn forsvarsmanna verkefnis um að lögleiða heimaslátrun sauðfjár, segir að hægt gangi að ljúka verkefninu. Svo virðist sem tregðan sé hjá Matvælastofnun. Hann er þó sannfærður um að verkfnið verði að veruleika fyrir næstu sláturtíð.

Bændur á tuttugu og fimm bæjum tóku í haust þátt í tilraunaverkefni um heimaslátrun sauðfjár með það að markmiði að auðvelda bændum að slátra heima og markaðssetja eigin framleiðslu.

Pólitíkin, bændur og neytendur, vilji ljúka málinu 

Þröstur Heiðar Erlingsson, bóndi í Birkihlíð í Skagafirði, er þar einn frumkvöðla og situr í starfshópi um þetta mál. Þröstur var gestur á Morgunvaktinni á Rás1 í morgun. Honum finnst málin ganga hægt. „Landbúnaðarráðherrann vill sjá þetta gerast og pólitíkin, neytendur og bændur. Samt er eins og þetta sé hálf fast.“

Segir boltann hjá Matvælastofnun

Og það virðist vera tregða hjá Matvælastofnun og eins og þetta standi í þeim sem eigi að sjá um eftirlitið, verði heimaslátrun lögleidd. „Hrönn Jörundsdóttir, forstjóri MAST, hefur meira að segja sagt það sjálf í viðtölum að það væri ekki Matvælastofnun sem ætti að setja reglurnar í kringum þetta. Samt er boltinn alltaf fastur þar einhvernveginn.“

Sannfærður um að niðurstaða náist fyrir haustið

Hann er þó enn sannfærður um að það náist niðurstaða og heimaslátrun til sölu afurða á almennum markaði verði leyfð í næstu sláturtíð. „Ég held að það sé alveg á hreinu. En menn fari ekki af stað fyrr en þeir viti nákvæmlega hvernig þeir standa gagnvart þessum reglugerðum. Það þýðir náttúrulega ekkert að fara af stað og svo kemur kannski einhver eftirlitsaðili og rústar þessu fyrir mönnum. Þess vegna þarf þetta að vera alveg skýrt.“