Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óttast að fólk fari að neita sér um læknisþjónustu

Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Öryrkjabandalagsins segir að það bitni á viðkvæmustu hópnunum í samfélaginu og þeim sem minnst mega sín geri sérfræðilæknar alvöru úr að hætta að hafa milligöngu um niðurgreiðslu Sjúkratrygginga til sjúklinga. 

 

Rammasamningar Sjúkratrygginga við sérfræðilækna hafa verið lausir síðan í lok árs 2018. Í aðsendri grein frá stjórn og samninganefnd Læknafélags Íslands í Fréttablaðinu í dag segir að það sé lögbundið hlutverk Sjúkratrygginga að annast útreikninga og greiðslur til sjúklinga, en læknar hafi sinnt því um árabil til að spara sjúklingum sporin. 

Öryrkjabandalagið, ASÍ og BSRB sendu frá sér yfirlýsingu í dag, þar sem Sjúkratryggingar og læknar eru hvött til að semja þegar í stað. Hætti læknar að hafa milligöngu um niðurgreiðslur gætu margir þurft að neita sér um læknisþjónustu.  

Þuríður Harpa Sigurðardóttir,  formaður Öryrkjabandalagsins, segir að það hafi aukist að fólk hafi samband og kvarti undan kostnaðinum sem fylgir því að fara til sérfræðilækna. „Okkar hópur, þeir sem ég er í forsvari fyrir, eru örorkulífeyrisþegar. Það er fólk sem er á lágum tekjum yfirleitt og hefur þá síður efni á að greiða fyrir læknisþjónustu. Allavegana ekki fullu verði,“ segir Þuríður Harpa.

Í yfirlýsingunni segir að læknar beiti sjúklingum fyrir sig sem vopni í kjarabaráttu sinni. „Þetta lítur bara nákvæmlega þannig út fyrir okkur,“ segir Þuríður Harpa. „Þetta getur skipt tugum þúsunda, hvert skipti sem þú ferð til sérfræðilæknis og það er ekkert á færi lágtekjuhópa að greiða út slíkar upphæðir.“
Þuríður Harpa segir að Öryrkjabandalagið hafi, síðan samningarnir urðu lausir, þrýst á um lausn deilunnar. „Það er engum til hagsbóta, allra síst sjúklingum, langveiku fólki að þessi deila dragist á langinn.“