Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ótímabært að slá Hvassahraun út af borðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarstjórn - RÚV
Í ljósi jarðhræringanna á Reykjanesskaga hafa spurningar vaknað um hvort ráðlegt sé að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði á borgarstjórnarfundi í gær allar forsendur brostnar fyrir flugvallarstæði í Hvassahrauni og vill hún tryggja rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Borgarstjóri segir ótímabært að slá allan Reykjanesskaga út af borðinu vegna þess að þar sé virkt eldstöðvasvæði.

Spáðu næsta gosskeiði eftir eina öld

Marta fór yfir mat ÍSOR, Íslenskra orkurannsókna, frá 2015 á mögulegu gosi á Reykjanesskaga á borgarstjórnarfundi í gær. Það var gert að ósk Rögnunefndar sem var falið að finna stað fyrir nýjan innanlandsflugvöll.

„Í skýrslu ÍSOR kemur fram að hraun sem myndi ógna flugvallarstæðinu við hvassahraunslandið koma upp í Krýsuvíkurkerfinu. Miklar líkur eru á að aldir líði áður en Krýsuvíkurkerfið rumskar næst.“ Búast má við að næsta gosskeið á Reykjanesskaga hefjist í Brennisteinsfjöllum. Það gæti orðið eftir um eina öld. Hraun þaðan er ekki líklegt til að ógna flugvallarstæðinu í Hvassahrauni [...] Miðað við tímabil gosskeiða er langt í það næsta.“

Jarðhræringarnar undanfarna daga tilheyra Fagradalsfjallskerfinu, en Krýsuvíkurkerfið liggur samsíða því í austur og Brennisteinsfjallakerfið enn austar.

„Það er ekki verjandi lengur að eyða tíma og peningum skattgreiðendum í rannsóknir á nýju flugvallarstæði í Hvassahrauni.  Allar forsendur eru brostnar og því verkefninu sjálfhætt,“ sagði Marta. 

Ekki tímabært að slá Reykjanesið af þrátt fyrir virkni

Borgarstjóri segir rannsóknum nýs starfshóps um byggingu flugvallar í Hvassahrauni eiga að ljúka fyrir lok þessa árs. Vinna starfshópsins hófst 2019 og er hugað að greiningu á öllum nauðsynlegum þáttum varðandi nýjan innanlandsflugvöll og byggist hún meðal annars á mati Veðurstofunnar sem unnið er fyrir Almannavarnir og lýtur að eldgosahættu og náttúruvá á öllu suðvesturhorninu.

„Bæði ég og ráðherra höfum sagt að það sé að sjálfsögðu lykilatriði þegar við erum að skoða Hvassahraunið að horfa á hvað kemur út úr þessu[...]

Það má alveg segja, eins og borgarfulltrúi orðar það hér, að allt Reykjanesið sé á virku eldstöðvasvæði en ég held að það sé alls ótímabært að slá allt Reykjanesið af,“ sagði Dagur B. Eggertsson.