Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýja Delhi mengaðasta höfuðborg heims þriðja árið í röð

17.03.2021 - 05:19
epa08810661 An Indian security personnel walks near the President's House as the city is engulfed in heavy smog in New Delhi, India, 10 November 2020. According to doctors, the extreme pollution in the city could aggravate the ongoing COVID-19 coronavirus situation in the city. Also, the National Green Tribunal (NGT) imposed a total ban on sale or use of all kinds of firecrackers in the National Capital Region (NCR) up to 30 November for the upcoming Diwali festival.  EPA-EFE/RAJAT GUPTA
 Mynd: epa
Nýja Delhi, höfuðborg Indlands, heldur þeim lítt eftirsóknarverða titli að teljast mengaðasta höfuðborg heims, þrijða árið í röð. Þetta er niðurstaða árlegrar rannsóknar á vegum svissneska tæknifyrirtækisins IQAir, sem sérhæfir sig í mælingum á og vörnum gegn loftmengun. Árið 2020 var meðalgildi af fínu svifryki 84,1 míkrógrömm á rúmmetra lofts þar í borg.

Áætlað er að fínt svifryk hafi valdið um 54.000 ótímabærum dauðsföllum í Nýju Delhi í fyrra, þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr mengun þar um hríð, fyrir áhrif COVID-19 á umferð og iðnað.

35 af 50 menguðustu borgum heims eru á Indlandi

Mengunin í Nýju Delhi var meira en tvöfalt meiri en í næst-menguðustu höfuðborg heims, Peking, þar sem ársmeðaltalið var 37,5 míkrógrömm af fínu svifryki í rúmmetra lofts. Samkvæmt rannsókn IQAir eru loftgæði reyndar óvíða verri en á Indlandi, því indverskar borgir raða sér í 35 af 50 efstu sætunum yfir menguðustu borgir heims á síðasta ári.

Efst trónir þó kínverska borgin Hotan, þar sem ársmeðaltalið var 110,2 míkrógrömm  af fínu svifryki í rúmmetra lofts. Þar á eftir koma 13 indverskar borgir, þeirra á meðal Nýja Delhi í 10. sæti listans. Auk indversku borganna 35 eru sjö kínverskar borgir á þessum „topp 50" lista, fimm pakistanskar, tvær bangladesskar borgir og ein indónesísk.