
Nýja Delhi mengaðasta höfuðborg heims þriðja árið í röð
Áætlað er að fínt svifryk hafi valdið um 54.000 ótímabærum dauðsföllum í Nýju Delhi í fyrra, þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr mengun þar um hríð, fyrir áhrif COVID-19 á umferð og iðnað.
35 af 50 menguðustu borgum heims eru á Indlandi
Mengunin í Nýju Delhi var meira en tvöfalt meiri en í næst-menguðustu höfuðborg heims, Peking, þar sem ársmeðaltalið var 37,5 míkrógrömm af fínu svifryki í rúmmetra lofts. Samkvæmt rannsókn IQAir eru loftgæði reyndar óvíða verri en á Indlandi, því indverskar borgir raða sér í 35 af 50 efstu sætunum yfir menguðustu borgir heims á síðasta ári.
Efst trónir þó kínverska borgin Hotan, þar sem ársmeðaltalið var 110,2 míkrógrömm af fínu svifryki í rúmmetra lofts. Þar á eftir koma 13 indverskar borgir, þeirra á meðal Nýja Delhi í 10. sæti listans. Auk indversku borganna 35 eru sjö kínverskar borgir á þessum „topp 50" lista, fimm pakistanskar, tvær bangladesskar borgir og ein indónesísk.