Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Malbikun fjölfarinna leiða kæmi í veg fyrir vegblæðingu

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar segir að fjölfarnir vegir á borð við þjóðveg eitt norður í land ættu fremur að vera malbikaðir en lagðir bundnu slitlagi. 

Bergþóra var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 þar sem hún sagði malbikun verið lausnina til að koma í veg fyrir vegblæðingar enda malbik miklu kröftugra efni en klæðningarnar. 

Blæðingar vega að vetrarlagi séu líklegri við ákveðin veðurskilyrði og þær séu sennilegri norðanlands, frá Borgarnesi og norður úr. Á þeim slóðum séu harðari veðurbreytingar með því að hraðar fari úr frosti og þýðu.

Bergþóra segir blæðingar þekkt fyrirbæri erlendis, Svíar hafi lent í svipuðum vanda og varð hér í desember síðastliðnum. 

Ekki sé hægt að rekja blæðingar eins og urðu í desember til íblöndunarefna enda hafi vegarkaflar sem blæddu í desember verið lagðir á fjögurra ára tímabili.

Blæðingarnar á þjóðvegi í desember eitt ollu skemmdum á bifreiðum sem nema um 30 milljónum króna. Vegagerðin mun þurfa að greiða þann kostnað.Bergþóra segir ekki hægt að tengja blæðinguna þá við einstaka kafla eða einstaka blöndun. Veðurskilyrðum megi helst kenna um. 

Vegblæðingar segir Bergþóra ekki vera nýtt fyrirbæri, reyndir starfsmenn Vegagerðarinnar þekki þær frá gamalli tíð. Menn hafi glímt lengi við þær en hún teldi að best færi á að malbika þjóðveginn norður í land sem ber hvað mesta þungaflutninga.

„Þar myndum við vilja vera komin með malbik miklu lengra. Malbikið blæðir ekki og þolir þessa miklu þyngd sem er á bílunum og þessa miklu umferð.“

Bergþóra segir viðbragð Vegagerðarinnar við vegblæðingum vera að beita þungatakmörkunum eða lokunum vega, sem sé ekki vinsælt, en malbikuðum leiðum fjölgi sífellt.

Lausnin væri að malbika vegi sem bera mikinn umferðarþunga og þungaflutninga. Landflutningar tryggi þann hraða í afhendingu vara sem nútíminn krefst. 

„Við erum alltaf að teygja okkur lengra á hverju ári á öllum þessum vegum. Í dag er komið malbik í Borgarnes, það er komið út á flugstöð, að Skeiðavegamótum og í kringum stór bæjarfélög úti á landi eins og Akureyri.“

Það eigi einnig við um fjölfarna ferðamannavegi og innan bæja. Bergþóra segir malbik vera dýrt, þrisvar til fimm sinnum dýrara en klæðning. Vegagerðin hafi unnið jafnt og þétt að því að lengja malbikaða kafla af viðhaldsfé sem sé af skornum skammti.

Vegakerfið á Íslandi sé viðamikið og hlutfallslega dýrt fyrir Íslendinga enda fáir að vinna fyrir kostnaðinum við það. Þó væri ekki jafnvíða bundið slitlag og raun ber vitni hefði ekki verið notast við klæðningarnar.

Bergþóra segir áherslu hafa verið lagða á leiðir þar sem umferð er mikil og miklir þungaflutningar. Verkefnið hafi verið unnið jafnt og þétt af viðhaldsfé sem sé af skornum skammti, þótt það hafi lagast mikið.

Bætt hafi verið í undanfarin ár enda sé vegakerfið mikilvægur þáttur samfélagsins, það sé í rauninni æðakerfi þesste.