Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Konur og loftlagsmálin

17.03.2021 - 14:10
Mynd: Matt Hardy / Pexels
Hafdís Hanna Ægisdóttir ræddi í umhverfispistli sínum í Samfélaginu um áhrif loftlagsbreytinga á konur og hvaða áhrif þær geta haft til að draga úr þeim.

Ögrun og áskorun

Síðastliðinn mánudag 8. mars var árlegur alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Yfirskrift dagsins þetta árið var „Choose to challenge“ sem má þýða yfir á ástkæra ylhýra sem „Veljum að ögra“ eða „skorum á hólm“ en með yfirskriftinni er vakin athygli á því að jafnrétti er ekki náð, við þurfum öll að standa vörð um jafnrétti, vera meðvituð um kynjahlutdrægni en fagna um leið afrekum og vinnu kvenna. 
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna á sér nokkuð langa sögu. Það var þýska kvenréttindakonan og sósíalistinn Clara Zetkin sem fékk hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna og bar hana fyrst upp á fundi alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna í Kaupmannahöfn árið 1910 en fundinn sóttu 130 konur frá 16 löndum. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss árið 1911. Ári síðar bættust Svíþjóð, Frakkland og Holland í hópinn og stuttu síðar Tékkóslóvakía og Rússland. 
Nokkuð mörgum áratugum síðar eða þann 8. mars 1970 gekk dagurinn í endurnýjun lífdaga í kjölfar nýju kvennahreyfingarinnar og þess andrúmsloft kvenfrelsis sem þá skók Vesturlönd. Sameinuðu þjóðirnar lýstu árið 1975 alþjóðlegt kvennaár og í tilefni af því var kvennafrídagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn en eins og sumir hlustendur muna eflaust eftir þá lögðu um 90% íslenskra kvenna niður störf sín þann 24. október það ár til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar. Tveim árum síðar – árið 1977 – ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvennadagur Sameinuðu þjóðanna. 
En af hverju er mikilvægt að halda áfram að ögra og skora á hólm þegar kemur að jafnrétti kynjanna?  Höfum við ekki náð jafnrétti – svona nokkurn veginn? 

Konur í loftlagsvá

Því miður er svarið nei, meira að segja í jafnréttisparadísinni Íslandi sjáum við enn kynbundinn launamun, konur verða enn fyrir kynbundnu ofbeldi og áreitni og allt of fáar konur eru forstjórar fyrirtækja svo fátt eitt sé nefnt. 
Í mörgum öðrum löndum heims er staða kvenna þó mun verri en hér á landi, bæði þegar kemur að möguleikum til náms og starfa og ekki síst tækifærunum til að hafa áhrif í samfélaginu, í ríkisstjórnum, fyrirtækjum og háskólunum. 
En hvernig kemur jafnrétti kynjanna umhverfismálum við? Þetta er jú umhverfispistill. 
Jafnrétti kynjanna og umhverfismál eru nátengd. Stærsta umhverfisvá okkar tíma – loftlagsváin - hefur til að mynda mismunandi áhrifin á kynin og lausnirnar til að takast á við hana kalla á mun meiri aðkomu kvenna að ákvarðanatöku, stefnumótun og fræðslu.
Skoðum þetta nánar.
Í fyrsta lagi eru konur varnarlausari þegar kemur af afleiðingum loftlagsbreytinga – sér í lagi konur sem búa í fátækari löndum heimsins. Konur eru varnarlausari því þær eru meirihluti fátæks fólks í heiminum og háðari aðgangi að landi til að afla sér fæðu, vatns og eldiviðar. Þessi aðgangur er í hættu þegar þurrkar, flóð og hærri sjávarstaða verða að meira vandamáli í kjölfar loftlagsbreytinga.  
Þessi birtingarmynd loftlagsbreytinga hefur oftar en ekki verri afleiðingar fyrir konur þar sem þær hafa minni aðgang og eignarrétt yfir auðlindum, eru síður fjárhagslega sjálfstæðar og fá síður tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku. Valdaójafnvægi kynjanna í mörgum löndum og fastmótuð kynjahlutverk veikja stöðu kvenna enn frekar og gera stúlkur og konur varnarlausari fyrir kynbundnu ofbeldi, bæði innan og utan heimilisins.
Auknir þurrkar geta sömuleiðis klofið fjölskyldur þegar karlarnir leita nýrra svæða til beitar og akuryrkju, jú eða gerast farandverkamenn á meðan konurnar verða eftir einar með börn og bú en þó enn fjárhaglega háðar körlunum og því í slæmri stöðu til að takast á við fjárhagsleg áföll sem fylgja uppskerubresti og öðrum áföllum í landbúnaði. Ef þær að lokum neyðast til að flýja heimili sín vegna alvarlegra afleiðinga loftlagsbreytinga eru þær í aukinni hættu að vera nauðgað eða verða fyrir öðru ofbeldi. 
Þegar þrengir í búi vegna aukinna þurrka, flóða og annarra loftslagstengdra náttúruhamfara aukast líkurnar á því að stúlkur verði teknar úr skóla til að hjálpa til heima eða fara út að vinna. Í sumum tilfellum finnst foreldrum sem geta ekki lengur brauðfætt börnin sín þeir ekki hafa annan kost en að gifta barnungar dætur sínar frá sér.

Mismunandi áhrif á kynin

Það sama hefur gerst í veirufaraldrinum sem nú skekur heimsbyggðina, ofbeldi gegn konum og stúlkum hefur aukist og barnahjónabönd sömuleiðis, fleiri konur hafa misst atvinnu en karlar og fátækt þeirra hefur aukist. 
Ef afleiðingar loftlagsbreytinga verða það slæmar á einhverjum svæðum að ekki verði lengur hægt að stunda þar landbúnað gerir það stöðu kvenna í mörgum löndum enn viðkvæmari. Jú, ástæðan er sú að í þónokkuð mörgum löndum eru enn lagalegar hindranir fyrir frjálsri atvinnuþátttöku kvenna. Í sumum tilfellum mega konur ekki vinna í verksmiðjum eða mega ekki vinna án leyfis frá eiginmanni sínum svo fáein dæmi séu nefnd.
Aðrar alvarlegar afleiðingar loftlagsbreytinga er aukinn hætta á ófriði eftir því sem samkeppni um auðlindir eykst, matvælaverð hækkar og fólk flýr heimili sín í leit af betra lífi. Og ófriður hefur mismunandi áhrif á stelpur og stráka, karla og konur. 
Til að takast á við þessar umhverfisógnir þurfum við þekkingu og reynslu frá fjölbreyttu fólki. Við þurfum að ögra staðalímyndum og setja upp kynjagleraugun. Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig afleiðingar loftlagsbreytingar og annarra umhverfisógna hafa áhrif á kynin, hvað er líkt og hvað er ólíkt og hvaða afleiðingar hefur það fyrir umhverfi okkar og samfélag ef við tökum ekki tillit til aðstæðna kvenna. 
Til að takast á við loftlagsvána á heimsvísu, bæði þegar kemur að aðgerðum til að hægja á loftlagsbreytingum og aðgerðum til að aðlagast þeim er gríðarlega mikilvægt að leita í viskubrunn og reynslu kvenna – hvort sem það er í Úganda, Bandaríkjunum, Indónesíu eða á Íslandi. Við þurfum að bjóða konum sæti við borðin þar sem ákvarðanir eru teknar, við þurfum að hlusta á konur og meta störf þeirra til jafns við störf karla. Þegar kynin eru jafn rétthá þegar kemur að ákvarðanatöku og stefnumótun eru mun líklegra að ákvarðanir er varða heilsu og vellíðan kvenna verði teknar af þeim sjálfum í stað karla sem eiga erfitt með að setja sig í þeirra spor.

Fjölbreytni leiðir til betri ákvarðana

Rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki sem hafa fjölbreytt fólk í stjórnum sínum sýna betri árangur þegar kemur að loftlagsvænni stefnumörkun og aðgerðum. Til að mynda sýna fyrirtæki í tækni- og orkugeiranum sem hafa að minnsta kosti 30% kvenna í yfirmannastöðum betri árangur í umhverfismálum en fyrirtæki þar sem konur eru í miklum minnihluta. Stjórnir með jöfnu eða því sem næst jöfnu kynjahlutfalli setja sér skýrari loftslagsmarkmið og sýna meira gagnsæi í eigin kolefnisbókhaldi. 
Já, ákvarðanir verða betri þegar fjölbreytt fólk kemur að ákvarðanatöku en því miður eigum við enn langt í land til að jafnrétti verði náð. Árið 2020, voru aðeins 4,4% forstjóra fyrirtækja í heiminum konur, aðeins fjórðungur þingmanna eru konur, aðeins 7% þjóðhöfðingja og aðeins 6% þeirra sem fara fyrir ríkisstjórnum. Það er því verk að vinna og endalaus tækifæri fyrir Ísland til að halda áfram að sýna gott fordæmi með því að stuðla að jafnrétti hér heima og tala fyrir jafnrétti á erlendri grundu. 
Það er mikilvægt að skora á hólm og ögra úreltum hefðum, hugmyndafræði og hegðun til að knýja fram breytingar sem verða okkur öllum til góðs. 
Við getum ákveðið að skora hvort annað á hólm þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Skorum á fjölskyldu, vini, samstarfsfólk, vinnustaði, fyrirtæki og stjórnvöld að styðja konur til góðra verka, hrósa konu fyrir vel unnin störf en ekki bara fyrir útlit, fatasmekk og holdafar. Hvetja konu til að bjóða sig fram til áhrifastarfa, til að segja skoðun sína. 
Að lokum ætla ég að vitna í ræðu sem Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir verkakona hélt á kvennafrídaginn árið 1975 en orð hennar eiga svo sannarlega enn við í heiminum nú á 21. öldinni.
,,Konan er að vakna. Hún veit að karlmenn hafa ráðið í heiminum frá því sögur hófust. Og hvernig hefur sá heimur verið? Hann hefur löðrað í blóði og logað af kvöl. Ég trúi að þessi heimur breytist þegar konur fara að stjórna til jafns við karla. Ég vil og ég trúi því að þið viljið það allar að heimurinn afvopnist. Allt annað eru stjórnmálaklækir og hræsni. Við viljum leysa ágreiningsmálin án vopna!"  
 

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður