Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íbúar á Völlum fengu SMS um að þeir væru á lokuðu svæði

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Íbúar á Völlunum í Hafnarfirði fengu fyrir mistök SMS-skilaboð frá Almannavörnum í dag um að þeir væru á lokuðu svæði og í skilaboðunum var vísað á upplýsingasíðu um jarðhræringar á Reykjanesskaga. „Þetta var SMS sem átti að fara bara á þá sem eru á svæðinu í námunda við Keili og Fagradalsfjall, þar sem enginn býr, en fólk fékk þetta á allt of stóru svæði,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna.

Hún segir að það séu engar breytingar á svæðinu eða á viðvörunarstigi Almannavarna. SMS-in hafi verið send til þess að virkja sms-viðvörunarkerfi á svæðinu, og í skilaboðunum hafi fólki verið beint inn á vef Almannavarna. „Við vorum að virkja sms-kerfi á svæðum þar sem er varhugavert að vera, en það sem gerðist var að svæðið var allt of stórt. Það þurfti að virkja svæðið til þess að þeir sem keyra inn á svæðið fái sms-ið,“ segir hún. „Vellirnir eru ekki hættusvæði.“

Uppfært 17:41: SMS-skilaboðin bárust líka til fólks sem var staðsett í Grindavík og hugsanlega til fólks víðar á höfuðborgarsvæðinu en í Hafnarfirði. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV